Ég er með mjög lítinn lim

Komið sæl.
Ég er 16 ára gamall með mjög lítinn lim og veit ekki hvort hann mun stækka eða vera mjög lítill á stærð en ég er með roða á typpinu í leiðinni og sýkingu og veit ekki hvort að það stoppi vöxin eða myndi hann stækka meira eða hvað ?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Margir strákar hafa áhyggjur af stærð typpisins og lögun þess og eru þær vangaveltur skiljanlegar, en í flestum tilvikum alveg ástæðulausar. Meðallengd hjá fullþroskuðum karlmanni er um 7 til 10cm í slökun og 10 til 18cm í fullri reisn. Flestir strákar ná fullum kynþroska á aldrinum 15 til 18 ára og typpið er oftast komið í sína eðlilegu stærð við 18 ára aldur.

Afturámóti ráðlegg ég þér að fara til læknis og láta skoða roðann, ekki það að það gæti hamlað vöxt typpisins, heldur þarf að ganga úr skugga um hvort þú sért með bakteríusýkingu eða sveppasýkingu á kónginum eða undir forhúðinni. Því ef svo er þá þarftu að fá meðhöndlun við því, krem eða töflur.

Læt fylgja með góða samantekt og upplýsingar sem gætu gagnast þér. https://www.heilsuvera.is/efnisflokkar/kynheilbrigdi/kynthroski/kynthroski-drengja/

Gangi þér vel.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.