Spurning:
Sæll.
Ég hef skoðað þessa fyrirtakssíðu hjá ykkur og ákvað að athuga hvort þið gætuð bjargað mér líka.
Ég er 18 ára og er með þennan hræðilega litla lim sem ég skammast mín mikið fyrir. Ég er jafnvel orðinn hræddur við að fara í sund vegna þess og sjálfsálitið er ekki upp á það besta.
Það sem mig langar að spyrja ykkur góða fólk á Doktor.is er hvort eða hvernig get ég lagað það … eru til aðgerðir eða pillur fyrir þessu vandræðalega ástandi og ef svo er hvað kosta þær?
Ég væri ekki að skrifa þetta ef ég væri ekki alveg fullkommlega búinn að missa alla von, svo að ég vona að þið svarið sem fyrst…
Með von um svar…
Svar:
Sæll.
Stærð limsins veldur mörgum karlmönnum miklum kvölum. Algengast er að það sé vegna þess að þeim finnst hann mjög lítill, en hitt er einnig til að karlmenn þjáist vegna stærðar hans. Tippi eru af öllum stærðum og gerðum í raun og veru. Þau eru til mjög lítil, lítil, miðlungs stór, stór og mjög stór. Þau eru til bein og bogin og jafnvel hlykkjótt. Allt getur þetta valdið erfiðleikum, sem þó fyrst og fremst tengjast viðhorfum og líðan en ekki notagildi. Langflest tippi gagnast mjög vel til þess sem þau eru ætluð, annars vegar til þess að losa þvag og hins vegar til kynlífs. Þó geta þarna verið annmarkar á. Hvað varðar annmarka varðandi kynlíf er algengast að mjög bogin tippi séu til vandræða. Yfirleitt ekki lengd þeirra. Það er gjarnan sagt eins og Bubbi sagði einhvern tíma: “Lítil tippi stækka mest”. Er þar átt við það að þau tippi, sem eru lítil í lafandi stöðu stækka meira en þau sem eru stór í lafandi stöðu. Þannig nálgast þau bæði meðalstærð við stinningu. Enda er það yfirleitt lafandi staða, sem veldur strákum mestum áhyggjum. Mestu vandamálin, sem lítil tippi orsaka eru ekki vandamál tengd því að geta lifað góðu kynlífi, heldur því að þau valda yfirleitt svo miklu hugarangri að það hefur mjög neikvæð áhrif á sjálfstraust karlmannsins og lítið sjálfstraust veldur síðan alls kyns kynlífsvandamálum hjá körlum eins og ég hef áður rakið.
Það eru ekki til neinar pillur til þess að stækka tippið og heldur ekki neinar aðgerðir. Lýtalæknir getur þó framkvæmt aðgerð, sem gerir það að verkum að tippið hangir meira og virkar stærra, en það stækkar ekki neitt. Þú getur því rætt það mál við lýtalækni og látið hann skoða þennan möguleika og hvort hann metur það svo að ástæða sé til aðgerðar. Hins vegar les ég úr bréfi þínu að sjálfstraust þitt og kynímynd hefur borið hnekki og það þyrftir þú að ræða við sálfræðing og vinna bug á því. Svo er auðvitað til í dæminu, þar sem þú ert bara 18 ára, að þú sért ekki að fullu kynþroska. Það veist þú reyndar best um sjálfur.
Það eru sem sagt langmestar líkur til þess að lítill limur þinn geti vel gagnast þér í góðu kynlífi, ef þú bara kemst yfir það að láta þetta minnka sjálfstraust þitt og beygja kynímynd þína.
Leitaðu aðstoðar og gangi þér vel,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur.