Ég er svo ljót hvað get ég gert?

Hæhæ. Ég er ljót og veit ekki hvað ég á að gera í því af því að ég er með mjög lítið sjálfstraust út af því. Ég er í góðu formi en ég á bara mjög oft erfitt með að horfa á andlitið mitt í spegli. Ég á kærasta og lít mjög oft undan þegar hann horfir á mig og fel mig undir sænginni ef hann kveikir ljósin. Ég er yfirleitt máluð en mér finnst mjög oft málningin ekki einu sinni nóg til þess að fela hvernig ég lít út. Ég hef fengið bólur frá því ég var um 13 ára og er núna á pillunni en er samt alltaf alla vega með tvær virkar bólur og húðin mín er alltaf svo rauð og þurr og ellileg og ég er líka alltaf með baugu. Þetta er að gera út af við mig. Ég viðurkenni aldrei fyrir neinum hvernig mér líður en svona líður mér yfirleitt inn í mér. Ég er 22 ára. Mig langar bara í fullkomna húð. Hvað get ég gert til að líða betur, get ekki hætt að hugsa um þetta.

Um daginn var ég ómáluð fyrir framan kærastann minn og var þá með frekar margar bólur og hann spurði mig hvort ég hefði prófað að nota einhverja líkamssápu sem hann notar alltaf á andlitið af því að þá minnka bólur svakalega..(Hann btw fær aldrei bólur og ég var ekki að spyrja hann um ráð) Ég fór að hágráta í nokkra klukkutíma eftir það.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þessar hugsanir og skoðun þín á sjálfri þér eru ákaflega neikvæðar og niðurrífandi. Mig langar þess vegna að ráðleggja þér tvennt. Vandamál í húð er hægt að fá aðstoð með til dæmis hjá Húðlæknastöðinni eða öðrum húðsjúkdómalæknum. Þar getur þú fengið faglega og góða ráðgjöf við líkamlega þátt vandans. Hins vegar tel ég afar brýnt fyrir þig að fá aðstoð við að byggja upp þína sjálfsmynd. Öll erum við allskonar í útliti og eigum í glímu við ýmis verkefni og til þess þurfum við að hafa sjálfstraustið í lagi. Niðurrrifshugsanir eins og þú lýsir koma þér ekki að neinu gagni. Þú festist í niðrurifssspíral sem mun að lokum yfirfærast og lita þitt daglega líf þannig að þú til dæmis túlkar vinsemd og ást kærastans þíns og vilja hans til þess að hjálpa þér sem árás. Fáðu aðstoð sálfræðings til þess að losna út úr þessum neikvæða vítahring öðru vísi nærðu ekki árangri.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða HAuksdóttir, hjúkrunarfræðingur