Spurning:
Sæl.
Ég skrifa þetta þar sem ég er gjörsamlega úrræðalaus. Ég er tæplega þrítug, á eina dóttur og á mann sem er á sjó. Ég hef verið á Zoloft í tæp fjögur ár og á þeim tíma fór ég í 10 tíma hjá sálfræðingi til að hjálpa mér gegnum skilnað.
Nú um áramótin ákvað ég að hætta á lyfinu, en ég hafði verið að taka stundum tvær og stundum eina á dag. Þar sem ég er ekki hrifin af því að taka þessar töflur auk þess sem ég held að þær lagi ekkert heldur deyfi mig, eða láti mér líða betur án þess að veraa í raun að bæta það sem þarf að laga.
Nú er svo komið að mér finnst allt vonlaust, ég tók að gamni mínu þunglyndispróf sem er hér á síðunni og svaraði samkvæmt bestu samvisku og fékk 59 stig, það fannst mér mjög sláandi. Það sem mér finnst verst er að þetta ástand mitt bitnar verulega á dóttur minni og kærastanum, þá sjaldan hann er heima. Mér finnst ég virkilega þurfa að taka á honum stóra mínum til að hemja mig (fara ekki að gráta eða velta um húsgögnum) og ef ég bregst illa við kvelur mig nagandi sektarkennd á eftir.
Ég tek fram að ég legg ekki hendur á dóttur mína, en á það til að vera skeytingarlaus og hvöss og á tíðum mjög ósanngjörn. Eitt af því sem mér finnst algjörlega nýtt í hegðun minni er þessi reiði sem blossar stundum upp án ástæðu og ég geri og segi hluti sem ég sé svo mikið eftir.
Alla jafna er ég mjög skipulögð og án skipulags finnst mér heimurinn hreinlega ekki virka, en núna hellast yfir mig verkefni og alls kyns aðstæður sem ég get ekki komið reiður á og allt hringsnýst í hausnum á mér og stundum verður þessi kvíði eða stress mjög mikið, mig svimar, ég snöggsvitna og verður flökurt. Núna finnst mér svo mikil óvissa í lífi mínu og ég finn bara fyrir uppgjöf.
Mér finnst ég einhvern veginn óvarin, eins og búið sé að fletta af mér húðinni, ég á erfitt með að einbeita mér, þoli ekki mörg áreiti í einu og bregst þá við með reiði og hreinlega rýk upp. Það fer einhvern veginn allt í taugarnar á mér og ég er mjög pirruð, alltaf hengd upp á þráð, svo mikið að stundum er dóttir mín nánast farin að læðast með veggjum nærri mér.
Ég sakna kærastans míns mjög mikið og það er mikill stuðningur af honum þegar hann er hér, en þegar hann er fjarri er ég skelfilega grátgjörn og reyni að láta tímann líða eins hratt og hægt er og sofa sem mest. Ég veit að þetta hljómar fáránlega og auðvitað er þetta það. Ég er skelfilega stressuð og kvíðin og það hefur magnast um allan helming síðan ég hætti að taka lyfið. Ég vil ekki lifa lífi mínu svona og ég er hreinlega orðin hrædd.
Ég hef aldrei nýtt mér svona þjónustu og veit í raun og veru ekkert hvað ég er að gera og eflaust er þetta allt saman óljóst og í belg og biðu, en ég skrifaði aðeins það sem kom strax upp í hugann. Með þakklæti og von um að fá aðstoð og tillögur um úrlausnir.
Svar:
Sæl vertu.
Ég held að þú ættir að byrja á því að leita þér aðstoðar á Landspítala göngudeild geðdeildar við Hringbraut. Þar er móttaka frá 08.00-23.00 og eftir það er vakthafandi læknir í húsinu. Þú getur ekki pantað tíma en morguntíminn virðist bestur frá 9.30-12.00.
Þér er velkomið að vera í sambandi og koma hingað (að Túngötu 7) í framhaldi af því.
Með kveðju,
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp