Ég finn fyrir hnúð, gæti það verið gyllinæð?

Spurning:

Sæll.

Mig langar til þess að fá smá álit hjá þér.
Málið er það að um jólin kom í ca. 3 daga tært blóð með hægðum, ég varð hálfsmeyk en svo hætti þetta þannig að ég gerði ekkert í þessu. Svo stuttu seinna fór ég að finna fyrir hálfgerðum hnúð við endaþarminn. Ég finn þennan hnúð ennþá en hann veldur samt ekki neinum sársauka, hægðir hafa reyndar verið linar núna síðasta misseri. Ég var að velta því fyrir mér hvort ég sé komin með gyllinæð, hef verið að reyna að lesa aðeins um hana og finnst mér þetta benda til þess.

Þetta er angrar mig ekkert meira en það að ég finn fyrir honum. Það hefur ekki blætt meira og engir verkir. Veldur mér samt svolitlum áhyggjum, var farin að ímynda mér krabbamein í ristli og eitthvað. Mig langar til þess að biðja þig um að segja mér hvað þú haldir um þetta og einnig hvað ég get gert til þess að þessi hnúður fari.

p.s. ég er 23 ára og átti barn fyrir rúmum 2 árum síðan. Þetta hefur aldrei gerst hjá mér áður.

Með bestu kveðjum

Svar:

Sæl.

Þetta er nokkuð einkennandi saga fyrir gyllinæð, sem eru bláæðagúll við endaþarmsopið. Ekki er ástæða fyrir þig að hafa áhyggjur af þessu, illkynja mein í endaþarmi er ákaflega sjaldgæft á þínum aldri. Venjulega hverfur þessi hnútur á nokkrum mánuðum og eftir verður húðsepi við endaþarmsopið. Hins vegar ef frekari óþægindi halda áfram eða blæðing frá endaþarmi, er rétt að fara til læknis og láta skoða þetta. Einföld, stutt speglun hjálpar til að meta frekar hvert vandamálið er, flýtir fyrir réttri meðferð og forðar frekari óþægindum frá endaþarmi.

Kveðja,
Ásgeir Theodórs, sérfræðingur í meltingarfærum.