Spurning:
Góðan dag.
Þannig er mál með vexti að ég held að ég þjáist af kvíða. Ég er 17 ára drengur og hef ég aldrei verið neitt sérstaklega kvíðinn að eðlisfari fyrr en fyrir svona 4 mánuðum. Ég byrjaði á því að fá magaverki, aðallega svona þennslutilfinning auk þess sem því fylgdu niðurgangur, stundum flökurleiki og einn dag af uppköstum. Þegar ég var búinn að vera með þetta í viku fór ég til læknis og hann sagði að þetta gæti stafað af magabólgum, hann sendi mig í magaspeglun, ómskoðun og blóðprufur. í magaspegluninni komu í ljós vægar bólgur en ekkert alvarlegt og í blóðprufnni voru hvítu blóðkornin aðeins of há (voru orðin eðlileg í seinni blóðprufunni). Síðan fór ég bara heim en allt kom fyrir ekki, ég ætlaði aldrei að lagast það var ekki fyrr en fyrir stuttu sem maginn komst í sæmilegt ástand og hafði þetta þá staðið í meira en mánuð. Málið er að allan þennan tíma hélt ég eða var viss um að ég væri kominn með krabbamein í ristli, sem er eiginlega fráleitt vegna ungs aldurs míns, þegar læknirinn sagði að ég væri með aðeins of há blóðkorn var ég viss um að ég væri kominn með hvítblæði og enn í dag þótt það sé ekki mikið að mér líkamlega finn ég enn fyrir þessari kvíðatilfinningu. Ég er mjög oft dofinn í fótunum og hélt þá fyst að ég gæti verið kominn með einhvern lömunarsjúkdóm, síðan fékk ég bólginn svitakirtil undir handakrikanum og var viss um að þetta væri æxli. Það er ljóst að þetta getur ekki staðið lengur, ég er kvíðinn á hverjum einasta degi, hræddur um að vera kominn með einhvern sjúkdóm og þetta er algjörlega að rústa félagslífi mínu, vona að þið getið hjálpað.
Einn hræddur.
Svar:
Heill og sæll.
Ekki er það gott að 17 ára ungur maður sem jafnan hefur verið hraustur skuli vera altekinn af þeirri tilfinningu að eitthvað sé að. Þú ert greinilega fastur í nk. vítahring þar sem minnstu líkamlegu einkenni verða tilefni til vangaveltna um alvarlegan sjúkdóm. Þegar þú ert síðan búinn að sannfæra þig um að hér geti einhver ákveðinn sjúkdómur verið á ferð fylgist þú enn betur með einkennunum og sannfærist enn frekar um að þín eigin sjúkdómsgreining sé rétt. Þetta gerir þig kvíðinn og smá saman ver í stakk búinn til þess að sinna öðru en þínum eigin áhyggjum.
Það var alveg rétt hjá þér að leita fyrst til læknis. Það virðist hins vegar ekki vera að neitt sérstakt sé að samkvæmt rannsóknum hans. Það er stundum þannig, og það virðist eiga við þig, að slíkar góðar niðurstöður nægja ekki til þess að róa viðkomandi. Áhyggjurnar halda áfram. Þú nefnir að þetta hafi allt byrjað fyrir u.þ.b. 4 mánuðum. Það gæti verið að eitthvað hafi gerst um þetta leyti, hjá þér eða öðrum sem þú þekkir, sem hafi komið þessu öllu af stað. Ég hvet þig til þess að skoða það vel. Svo kemur það líka til greina að það sé eitthvað í kringumstæðum þínum sem stressar þig eða veldur áhyggjum. Þetta þarftu að skoða vel. Þá held ég að það sé gott fyrir þig að leita þér aðstoðar hjá einhverjum fagmanni, t.d. sálfræðingi. Hann gæti hjálpað þér að fara yfir stöðuna, skýra hvers eðlis hún er og benda þér á leiðir til þess að líða betur. 17 ára strákur á ekki að þurfa að vera hræddur um að hann sé alvarlega veikur.
Bestu kveðjur og óskir um gott gengi.
Hörður Þorgilsson, sálfræðingur