Ég léttist um 22 kg, en er með slappan maga?

Spurning:

Sæl.

Ég er 18 ára strákur. Ég er 180 cm, 68 kg og með 11%fitu. Ég var feitur í æsku og missti 22 kg fyrir 3 árum. Ég náði þó aldrei almennilega maganum af mér, hann er ekki stór en frekar slappur og ég er með aðeins lafandi brjóst. Ég er með frekar horaðar axlir. Hvað á ég að gera til að slétta betur úr maganum og brjóstunum? Ég er að lyfta 4-5 sinnum í viku og tek reyndar ekki mikla brennslu því ég er að reyna að þyngja mig líka. Hvað er til ráða?? Gæti virkað að bursta á sér magann??

Eg vona að þú getir svarað þessu bréfi.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæll.

Þú getur sleppt því að bursta á þér magann, það hefur ekki áhrif á vöðvana né fituna. Nú veit ég alls ekki nóg um þig og þína æfingasögu til að geta ráðlagt þér af einhverju viti. T.d. hve lengi hefur þú lyft 4-5x í viku og hvaða lyftingaræfingar gerirðu? Það hljómar eins og þú sért með dálitla fitu framan á þér, því þú ert svo ungur og líklegt er að húðin þín sé búin að jafna sig eftir þyngdartapið fyrir 3 árum. Mín ráð til þín eru því að halda áfram að æfa, fá gott lyftingaprógram hjá fagmanni sem er sérsniðið fyrir þig og svo þarftu e.t.v. aðeins að huga að mataræði þínu einnig, þ.e. gæta hófs og láta sem mest vera að neyta sætinda og fituríkra fæðutegunda. Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari