Ég missti bróður minn fyrir ári, hvernig get ég unnið úr sorginni?

Spurning:

Sæll.

Ég er tvítug stúlka og fyrir rúmu ári síðan missti ég bróður minn í bílslysi, rúmlega tvítugan að aldri. Ég hef alltaf átt erfitt með að tala um þetta og líður að sjálfsögðu mjög illa út af þessu enn þann dag í dag.

Sumir dagar eru svo slæmir að ég á erfitt með að þrauka í gegnum daginn í skólanum, því það er oft nóg fyrir mig bara að hugsa um bróður minn þá brest ég í grát. Stundum koma líka bara dagar þar sem ég er dofin og mjög leið. Þó ég vildi það gjarnan fer ég nær aldrei að leiði hans því mér finnst það einfaldlega of erfitt.
v Því spyr ég: Er þetta eðlilegt? Hvað get ég gert til að flýta fyrir bata? Ég vildi að ég gæti farið að vinna úr sorginni en mér líður enn eins og þetta hafi gerst í gær og ég á enn erfitt með að trúa þessu. Ég vona að þið getið hjálpað mér því mér líður mjög illa.

Takk fyrir.

Svar:

Blessuð og sæl.

Blessuð og sæl. Ég vil nú byrja á því að segja að ég samhryggist þér alveg innilega með bróðurmissinn.

Þetta ástand sorgarinnar sem þú lýsir er alveg eðlilegt, þú skalt ekki óttast það.

En það gerir sorgina ekki léttbærarari. Sorgin er nú einu sinni þannig að hún kemur og fer, þetta sterka ástand, og við getum ekki ráðið við hana. Sorgin hjálpar okkur að fá útrás fyrir tilfinningar okkar, söknuð, reiði og þann missi sem fyllir hjartað.

Þegar ástand sorgarinnar varir svona lengi og er svona sterkt eins og þú lýsir, þá myndi ég ráðleggja þér að leita þér stuðnings og aðstoðar. Fátt er betur til þess fallið að hjálpa manni að vinna úr sorginni, en einmitt það að tala við einhvern sem með opnum huga er tilbúinn að hlusta á mann. Við eigum vissulega misjafnlega auðvelt með að tjá okkur við aðra og erum jafnvel feimin við það. En reyndu samt og vittu til, það mun örugglega verða þér til hins betra.

Er ekki einhver prestur sem þú getur talað við og þú þekkir? Ef ekki, þá ætla ég að benda þér á að hringja í einhvern af prestunum á Landspítalanum, þeir geta leiðbeint þér nánar. Eins vil ég benda á Rósu Traustadóttur, djákna á Landspítalanum, í síma 560-2271. Hún getur komið með ábendingar um hvern hægt er að tala við. Þú getur líka sent mér e-mail ef þú vilt á theimis@simnet.is og þá get ég gert það sama.

Kveðja,
Sr. þórhallur Heimisson.