Spurning:
Sæll.
Ég tók eftir því fyrir nokkrum árum að ég sé stundum (Sé það best þegar ég horfi á hvítann grunn og það er bjart) agnir fljóta í lausu lofti. Er þetta eitthvað sem ég þarf að athuga og er eitthvað hægt að gera til að losna við þetta. Með fyrirfram þökkum
Svar:
Sæll/sæl.
Þetta eru flygsur sem eiga sér bólstað í glerhlaupinu, sem er gagnsætt hlaup sem fyllir augað að innan. Þessar flygsur geta verið margvíslegar að lögun en geta flotið yfir sjónlínu og truflað svolítið – einkanlega þegar maður fer að taka of mikið eftir þeim! Þær eru sérstaklega áberandi líkt og þú nefnir þegar þú horfir á hvítan bakgrunn en einnig þegar horft er í heiðan himininn. Best er að taka ekki eftir þessu – það er líka auðveldara eftir að manni er sagt að þetta sé í lagi. Eina undantekningin er þegar kemur mikið af flygsum allt í einu og þá sérstaklega ef ljósglampar koma á undan. Þetta getur verið undanfari sjónhimnuloss, sem ber að taka alvarlega og láta vita af þegar í stað. Flygsurnar sem þú nefnir virðast mjög saklausar og er því best að horfa fram hjá þeim – í tvennum skilningi!
Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf.