Hvað er hiti?

Hiti er tímabundin hækkun á líkamshita sem kemur oftast til vegna veikinda. Hiti er ekki sjúkdómur heldur viðbrögð ónæmiskerfisins við bakteríum, vírusum og öðrum sýklum og gegnir því mikilvæga hlutverki að hjálpa líkamanum að takast á við sýkingar.

Hiti telst ekki hættulegur nema hann fari upp í 39,4°C eða hærra og þykir það ástæða til að hafa strax samband við lækni. Undir venjulegum kringumstæðum hverfur hann á nokkrum dögum. Hjá heilbrigðum miðast líkamshiti að mestu kringum 37,0°C.

Orsök

Undir venjulegum kringumstæðum er hitastig lægra á morgnanna og hærra á kvöldin.

Hiti eða hækkun á líkamshita getur meðal annars orsakast af vírusum, bakteríum, ákveðnum bólgusjúkdómum (eins og liðagigt), illkynja æxli, ákveðnum lyfjum (t.d sýklalyf og sum blóðþrýstingslyf) og sum bóluefni eiga það einnig til að hækka hita.

Í sumum tilvikum er ekki hægt að greina hvers vegna hiti er tilkominn.

Hugsanleg einkenni hita

Einkenni ásamt hita geta verið:

  • Sviti
  • Skjálfti og kuldahrollur
  • Lítil matarlyst
  • Einkenni vökvaskorts
  • Orkuleysi
  • Þreyta
  • Einbeitingaskortur

Við háan hita geta einkenni eins og pirringur, rugl ástand, óráð og flog komið fram.

Meðferð

Meðferð við hita fer að mestu leiti eftir orsök hans. Við háum hita er mælt með að taka hitalækkandi verkjalyf, svo sem Paracetamol og eða Ibuprofen. Fullorðnir geta einnig tekið Aspirin en ekki er mælt með að börn taki það né þeir sem eru á blóðþynnandi lyfjum.

Mikilvægt er að drekka vel af vökva því líkaminn getur orðið fyrir verulegum vökvaskorti.

Börn

Eðlilegur líkamshiti barna er oft hærri en hjá fullorðnum og getur verið sveiflukenndari. Við grátur eða hamagang getur hiti auðveldlega farið upp í 38°C án þess að um sjúklegt ástand sé að ræða. Hafa þarf samband við lækni ef hiti fer upp að 42°C en getur það haft skaðleg áhrif eða þegar börn 3 mánaða og yngri fá 38°C eða hærra.

Forvarnir

Hægt er að koma í veg fyrir hita með því að draga úr útsetningu smitsjúkdóma. Hér eru nokkur ráð:

  • Reglulegur handþvottur, til dæmis fyrir snertingu við mat, eftir klósettferðir, eftir búðarferðir eða eftir að hafa verið í kringum fólk, eftir nálægð við veikan einstakling, við ferðalög og margt fleir
  • Kenna börnum sínum réttan handþvott
  • Sprittnotkun þegar ekki er aðgangur að sápu og vatni, gott er að hafa spritt með sér, til dæmis í bílnum þínum eða veski
  • Forðast snertingu við nef, munn og augu, þar sem það eru helstu smitleiðir sem vírusar og bakteríur nýta sér til að komast inn í líkamann og valda sýkingum.
  • Haltu fyrir munninn þegar þú hóstar eða hnerrar
  • Komdu í veg fyrir að deila glösum eða áhöldum með börnum þínum

Þessi grein er byggð á upplýsingum fengnum af eftirfarandi vefsíðum:

https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/fever/symptoms-causes/syc-20352759 

https://www.medicalnewstoday.com/articles/321889 

https://medlineplus.gov/fever.html 

http://www.barnaspitali.is/barnaspitali-hringsins/frettir/fraedsluefni/2016/10/27/Hiti/ 

Höfundur greinar