Ég stama og finn fyrir einangrun – hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Þannig er að ég stama, hef stamað frá því að ég var lítill. Stamið hefur minnkað frá því þá en núna stendur það í stað og stundum á ég virkilega slæma daga. Stamið hefur haft mjög mikil áhrif á allt mitt líf að mér finnst. Ég er núna í framhaldsskóla og mér finnst ég vera að einangrast félagslega. Ég tala mjög lítið útaf þessu því ég vil ekki stama, þetta er einskonar vítahringur, ég veit það. Hvað get ég gert? Mig langar mjög mikið að tala og hef stundum mjög mikið að segja, ég bara get ekki komið því útúr mér. Er einhver leið til að losna við þetta. Ég hef eitthvað heyrt um dáleiðslu, Er það hægt?

Svar:

Þeim sem stama hættir mjög til einangrunar eins og þú lýsir. Við þessu er hægt að bregðast og mjög mikilvægt að gera það. Því fyrr því betra.

Víða um land eru talmeinafræðingar, sem geta hjálpað. Á vef Málbjargar, www.stam.is er listi yfir þá talmeinafræðinga sem sinna stami.

Ég þekki mjög lítið til dáleiðslumeðferðar, og veit ekki til að hún hafi verið notuð hér á landi.

Ráðleggingar mínar eru tvenns konar. Fáðu tíma hjá talmeinafræðingi strax. Hann mun leitast við að auka talfærni þína, þannig að talið verði liprara og áreynsluminna. Stundum minnkar stamið verulega, sérstaklega hjá ungum börnum, þar sem all algengt er að það hverfi alveg við meðferð.Þú skalt leitast við að auka sjálfstraust þitt. Meðferð hjá talmeinafræðingi er góð byrjun á þeirri leið. Einnig hjálpar það mörgum að hitta aðra sem stama og ræða málin í vernduðu umhverfi, þar sem maður fær nægan tíma til að tjá sig um það sem manni liggur á hjarta. Þar erum allir á jafnréttisgrunni. Síðan er mjög gefandi að sækja norrænar og alþjóðlegar ráðstefnur um stam, þar sem maður hittir tugi eða hundruð fólks og allir stama eitthvað. Sumir mikið og aðrir lítið.Síðan skalt þú fylgjast með heimasíðu Málbjargar. Við uppfærum hana alloft. Þar er mikið af upplýsingum um stam. Meðal annars leiðbeiningar um hvernig maður undirbýr sig undir að tala í síma. Einnig tilkynningar um félagsfundi og aðrar uppákomur.

Lykilatriði er að tala. Nota ekki stamið sem afsökun fyrir því að þegja.

Björn Tryggvason
formaður Málbjargar.