Spurning:
Ég hef stundað líkamsrækt og þrekþjálfun af talsverðu kappi undanfarin rúm tvö ár með ágætum árangri, þjálfarar segja eftir að hafa sett mig í þrekpróf að þrek mitt sé langt yfir meðallagi fyrir minn aldurshóp, ég er heilsuhraustur og mjög sjaldan verður mér misdægurt. En eitt angrar mig meira og meira og fær mig til að velta því fyrir mér hvort einhver líkamssstarfsemi sé ef til vill ekki í lagi, ég svitna óskaplega! á æfingum er ekki þurr þráður á mér og þetta hefur greinilega aukist frá því ég byrjaði að æfa. Tiltölulega létt vinna getur látið mig rennsvitna td. bóna bílinn, slá blettinn eða taka nokkur dansspor og síðast en ekki síst er þetta óþægilegt við ástundun kynlífs. Getur þetta verið eðlilegt, lagast þetta hugsanlega við enn lengri þjálfun eða er kannski eitthvað annað að? Eru einhver ráð við þessu? Með von um svör eða útskýringar.
Svar:
Það er afskaplega einstaklingsbundið hve mikið fólk svitnar og yfirleitt talið að eftir því sem fólk kemst í betra form er líkaminn fyrr að hitna og byrjar því fyrr að svitna við áreynslu og svitnar meira. Ég hef ekki heyrt af tilfellum þar sem mikill sviti telst beinlínis til vandræða og þó hef ég í starfi mínu orðið vör við einstaklinga sem skilja eftir sig stóra svita polla á gólfinu. Því miður hef ég engin ráð við þessu vandamáli önnur en þau að skipta oft um bol. Mér finnst ólíklegt að þetta teljist óeðlilegt en þó skal ég ekki fullyrða um það því ómögulegt er að dæma fyrir víst um það í gegn um bréfaskriftir. Ég bendi þér því á að leita til læknis ef þú telur ástæðu til.
Bestu kveðjur,
Ágústa Johnson, framkvæmdastj.
Hreyfing, heilsurækt
Faxafeni 14
108 Reykjavík
s. 568 9915