Egg

Hæ. Geta konur farið í einhvers konar skoðun eða próf til að athuga hversu mörg egg hún á eftir?
Kveðja

Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina,

Stúlkur fæðast með þúsundir eggja í eggjastokkunum en þeir byrja ekki að starfa fyrr en á kynþroskatímabilinu. Við kynþroskann fara hormón að hafa áhrif á eggjastokkana og eggin byrja að þroskast. Oftast þroskast eitt egg í senn og losnar svo út í eggjaleiðarann og er það kallað egglos.

Heiladingullinn framleiðir hormónin sem örva eggjastokkana til að framleiða kynhormónin estrogen og prógestrón. Eggið ferðast síðan eftir eggjaleiðaranum í átt að leginu. Ef ekkert sæði frjóvgar eggið fer eggið út úr líkamanum með tíðablóði.

Hver kona þroskar aðeins brot af þeim eggjum sem hún fæðist með.

Til að egglos geti orðið, þurfa eggjastokkar, heiladingull og undirstúka heilans að starfa rétt.

Eftirfarandi atriði geta haft áhrif á starfsemi þessara þriggja líkamshluta:

 • Blöðrur á eggjastokkum
 • Mjög mikil líkamsrækt
 • Mataræði
 • Streita
 • Skyndilegt þyngdartap, átröskun eða þegar kona er mjög grönn
 • Krónískir sjúkdómar eða alvarleg veikindi
 • Sum lyf
 • Vanvirkni í skjaldkirtli (framleiðir ekki nægilegt magn af thyroxinhormóni)
 • Ofvirkni í skjaldkirtli (framleiðir of mikið af thyroxíni).
 • Of mikil framleiðsla á Prolactini (mjólkurhormóni) sem truflar egglos.
 • Offita getur valdið of háum gildum estrógens og þar með truflunum á viðkvæmu samspili estrógens og stýrihormóna heiladingulsins.
 • Vanstarfsemi eggjastokka

 

Ég hvet þig til að fara í skoðun hjá kvensjúkdómalækni ef þú hefur frekari spurningar.

Gangi þér vel,

Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur