Spurning:
Hvað er eggjahvítuefni, af hverju er það mælt í hverri mæðraskoðun, hvað getur orsakað að það verði of hátt og hvernig er hægt að koma í veg fyrir það?
Svar:
Eggjahvítuefni heitir öðru nafni prótein og er efni sem kemur úr fæðunni og nýtist okkur m.a. við frumuuppbyggingu. Próteinið er til staðar í blóðinu og fer um nýrun í þeirri hringrás sem þar er. Nýrun vinna blóðið þannig að próteinið fer aftur í blóðrásina og lendir því ekki í þvaginu, sem er úrgangsefni úr blóðinu. Þess vegna á það ekki að koma fram í þvaginu. Á meðgöngu breytist ýmislegt og nýrun eru undir miklu álagi við að hreinsa blóðið. Stundum kemur fyrir að þau ráða ekki alveg við þetta hlutverk sitt og ,,leka" smávegis próteini í þvagið. En sé meira en eðlilegt álag á nýrun, eins og verður við meðgöngueitrun, verður próteinútskilnaðurinn það mikill að greinilegt er að eitthvað er athugavert. Próteinið í þvaginu verður þannig mælikvarði á nýrnastarfsemina og getur sagt til um sjúkdóma á borð við meðgöngueitrun. Þess vegna er þetta athugað í hverri mæðraskoðun. Enn hefur ekki fundist nægilega haldbær skýring á orsökum meðgöngueitrunar til að hægt sé að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir en vitaskuld er til bóta að lifa heilbrigðu líferni, borða hollan og fjölbreyttan mat, stunda líkamsrækt og drekka mikið af fersku vatni.
Vona að þetta hafi svarað spurningunni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir