Ein allt of feit eftir meðgöngu

Spurning:

Sæl Ágústa,

Ég er í miklum vandræðum eftir að ég átti fyrsta barnið mitt sem var tekin með keisara. Það er þannig að nú eru sjö mánuðir síðan að ég átti. Ég er búin að hugsa mikið um líkamann síðan, það er að segja ég geng mikið og borða lítið. Engin breyting varð svo að ég ákvað að fara að æfa og er búin að gera það núna í 3 vikur 5 sinnum í viku og byrja alltaf að hita upp í 30 mín á Orbitrekk (held ég að það heiti). Síðan fer ég í tæki og geri magaæfingar en ekkert gerist ég léttist ekkert og sé engan mun á mér. Hvað þarf ég að gera svo að ég verði eins og ég var eða allavega að ég fari að sjá árangur því að ég æfi það mikið? Finnse ég þurfa að missa svona 6-8 kíló. Ég er núna 62 kíló og 166 cm, mjög smábeinótt þar af leiðandi allt of þung og bara spikfeit. Vonandi getur þú gefið mér einhver ráð.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það er erfitt að ráðleggja þér án þess að fá frá þér nákvæmar upplýsingar um hvað þú hefur borðað og hve oft í viku þú hefur gengið og gert æfingar. Ef þú ert nokkuð viss um að þú hafir verið að borða minna en þú brennir síðan þú fæddir barnið ráðlegg ég þér að leita til einkaþjálfara eða næringarfræðings og fá nákvæmar ráðleggingar í samræmi við neyslu- og hreyfi venjur þínar. Að öðrum kosti getur þú haldið þínu striki, skoðað matarvenjur þínar betur og gert breytingar á ef möguleiki er og hreyft þig 5-6x í viku. Það er ekkert auðvelt að losna við aukakílóin og það tekur tíma. Raunhæft markmið er að léttast um 1/2 kg á viku. Þú ættir að miða við að borða 1500-1700 he á dag og hreyfa þig oft, helst daglega. Stundaðu bæði styrktarþjálfun og þolþjálfun og gerðu styrktaræfingar fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans, ekki bara kviðvöðva.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari