Ekkert að – verð samt ekki ólétt?

Spurning:
Verð ekki ólétt er samt ekkert að!! Við erum ung hjón búin að vera að reyna eignast börn í 2 ár og ekkert gengur, það er búið að rannsaka okkur bæði og ekkert finnst að hvorki mér né honum, ég er búin að vera á frjósemislyfjum núna í 3 mánuði og ekkert gengur, ég mæli mig alla morgna og veit að ég hef egglos, við erum búin að reyna allt sem okkur er sagt að gera og ég er orðin ráðalaus. Ef ekkert er að af hverju verð ég þá ekki ólétt?

Svar:
Þótt mikið sé nú orðið vitað um frjósemi og orsakir ófrjósemi er enn um fjórðungur tilvika þar sem ekki er hægt að finna neina ástæðu ófrjóseminnar. Þótt bæði maðurinn og konan séu heilbrigð geta verið þættir í samspilinu milli þeirra sem hindrar að egg og sæðisfruma nái saman og þetta er erfitt að greina. Ef ekkert gengur hjá ykkur næstu 3 mánuðina þrátt fyrir frjósemislyfin hlýtur lækirinn þinn að leita annarra leiða eins og tæknisæðingar til að hjálpa ykkur að eignast barn.

Skoðaðu vef Tilveru, samtaka gegn ófrjósemi (www.tilvera.is), þar er að finna miklar og góðar upplýsingar um mögulegar orsakir ófrjósemi, ófrjósemismeðferðir og frjósemisstyðjandi aðferðir.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir