Endalaus veikindi hjá 2ja ára?

Spurning:
Ég á 2 ára dreng sem hefur verið mikið lasinn frá fæðingu. Hann hefur fengið lungnabólgu eða sýkingu í lungun og annað lungað mjög oft og hefur líka fengið oft í eyrun. Hann hefur fengið eitlastækkanir við nárann og í hálsinum. Hann verður reglulega mjög lasinn og fær þá upp í 40 stiga hita og varir það í nokkra daga. Ég fer með hann til læknis í hvert einasta skipti og fæ þá sýklalyf við lungna- eða eyrnabólgum og mér er sagt að gefa honum stíl og láta honum ekki verða of heitt. Ég hef spurt hvort þetta sé ekki óeðlilegt að hann fái oft svona hita og sýkingar og svarið er alltaf nei.
Hann er hjá dagmömmu og er búinn að vera lengi hjá henni. Ekkert barnanna þar hefur verið svona mikið veikt. Ég er að fara að panta tíma hjá ofnæmislækni til að athuga með eitthvað svoleiðis. Mér persónulega finnst ekki eðlilegt að hann sé alltaf svona veikur. Hann hefur verið það frá fæðingu. Núna er reyndar nýtt að koma upp á yfirborðið, hann er orðinn mjög lystarlaus og vill ekkert borða en alltaf fæ ég sömu skilaboðin samt frá læknunum – að hann sé bara með flensu, fæ sýklalyf og á að gefa honum stíl. Hann er mjög veiklulegur og fölur með bauga og læknarnir segja að þetta lagist bara hjá honum.
Hvað á ég eiginlega að gera? Er þetta eðlilegt? Hvert get ég farið með hann þannig að hann sé skoðaður almennilega? Ég á eitt annað barn sem er að verða 8 ára og hann hefur 7x orðið veikur um ævina. Ég yrði þakklát ef einhver þarna getur svarað mér. Ég bara treysti ekki þessum læknum sem ég er búin að vera fara svona mikið til. Ég er bara hrædd um að þetta sé eitthvað annað.

Svar:
Blessuð.
Ég held að það sé ágæt hugmynd að fá ofnæmislækni til að kíkja á hann til að kanna hvort um ofnæmi geti verið að ræða eða hvort ónæmiskerfið sé í lagi.

Kveðja,
Þórólfur Guðnason, barnalæknir