Endurtekin særindi í hálsi

Spurning:

Sæl.

Mig langar að spyrja ykkur hvað geti valdið endurteknum særindum í hálsi. Ég hef undanfarnar vikur fengið særindi í háls í 3-4 daga, svo ekki fundið fyrir þeim í nokkra daga og byrjað svo að finna fyrir þeim aftur.

Ég hef ekki fengið nein önnur einkenni. Ég hélt að þetta gæti verið væg flensa en nú þegar þetta gerist í 3.-4. skiptið á jafnmörgum vikum fór ég að velta einhverju öðru fyrir mér.

Svar:

Sæl.

Særindi í hálsi eru lang oftast vegna vírussýkinga. Mikið er til af vírusum sem valda kvefi eða særindum í hálsi. Líkaminn myndar mótefni gegn sýkingunni sem ver þig fyrir nýrri árás vírusa af sömu tegund, en þar sem tegundir vírusa eru margar getur þú sýkst af næstu tegund fljótlega á eftir. Seinni part vetrar og fram á vor er algengt að smitast af svona vírusum. Ekki eru nein lyf við þessum sýkingum og þó svo að þær séu tíðar er ekki ástæða að halda að eitthvað sé að ónæmiskerfi eða til frekara rannsókna.

Streptokokkar geta valdið hálsbólgu þó svo að þær séu sjaldgæfari og herji aðallega á börn og unglinga og valdi meiri veikindum en vírussýkingarnar. Hægt er að ganga úr skugga um hvort um þessa tegund af sýkingu sé að ræða með því að taka hálstrok. Streptokokkasýkingar geta verið endurteknar og eru meðhöndlaðar með pensillini.

Kinn- og ennisholubólgur geta valdið langvarandi og endurteknum í hálssærindum. Sama máli gegnir um bakflæði frá maga.

Síðast en ekki síst geta reykingar valdið þessum einkennum.

Kær kveðja,
Bryndís Benediktsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum.