Er á Ditropan og þorna upp?

Spurning:
Hvað þarf að drekka mikinn vökva af vatni á dag? Ég er á Ditropan og þorna öll upp við 3 töflur á dag. Fæ allar aukaverkanir, held líka þær sem eru enn óskráðar með upplýsingunum um lyfið. Fingur krumpaðir og þurrir eins og ég sé nýkomin úr baði eða sturtu, þurr í munni þannig að það er ekkert munnvatn til að skola niður mat. Einn matarbiti er lengi að renna niður hálsinn og ég fæ sviða í háls og verð smá hás. Ég tek þetta lyf við þvagleka og það er erfitt að vera á svo stórum skammti. Hef prófað að minnka niður í eina á dag, þá snarversnaði þvaglekinn og ég fór 9 sinnum á klósett einn daginn, svo ég byrjaði að taka 3 aftur og er svo þurr á höndum að ég fæ klígju við að snerta ýmis efni og það sem kemur hreint út úr uppþvottavél, hreina leirtauinu. Má ekkert snerta, það er svo vont. Fer aðeins 3svar sinnum á dag á klósett meðan ég er á lyfinu því ég hef forðast að drekka það mikið að ég þurfi alltaf að hafa klósett nálægt mér.

Svar:
Það er afar breytilegt hversu mikinn vökva hver og einn þarf að drekka daglega. Flestir drekka 1-2 lítra á sólarhring þótt sumir drekki talsvert minna ef þeir eiga við þvagleka og bráðamigu að stríða og þá iðulega hálfan til einn lítra á dag. Mér finnst ljóst að þú ættir að reyna annað lyf við vandamálum þínum sem hefur yfirleitt mun minni aukaverkanir og þarf að taka einu sinni á dag. Lyfið heitir Detrusitol Retard og er til í tveimur styrkleikum. Í annan stað má segja að ef þú þolir mjög illa öll þau lyf sem mögulegt er að nota við þínum einkennum, þá er rétt (ef ekki þegar gert) að þú látir rannsaka þig og skoða af þvagfærasérfræðingi. Bestu kveðjur,Valur Þór Marteinsson, þvagfæraskurðlæknir