Er b-12 vítamín kallað ,,smartdrug“

Spurning:

Ég hef heyrt talað um að vítamín b-12 sé stundum kallað ,,smartdrug". Hefur þetta vítamín einhver áhrif á heilastarfsemina?

Með fyrirfram þökk. X

Svar:

Sæll,

Ekki veit ég hvort við leggjum sömu merkinguna í ,,smart drug” en minn skilningur á ,,smart drug” er lyf, náttúrulyf og efnasambönd sem auka minni/vitsmuni fólks. Dæmi um slík lyf eru sum ný lyf við Alzheimer sjúkdómi og náttúrulyfið Ginko Biloba. Hvað B12-vítamínið snertir þá hefur það ekki bein áhrif á heilastarfsemina. Hinsvegar getur skortur á vítamíninu leitt til hrörnunar bæði í miðtauga- og í úttaugakerfinu þar sem það er nausynlegt við myndun ákveðins frumulags utan um taugafrumur sem heitir mýelínslíður. Mýelínslíðrið tryggir að taugaboð eru send með þeim hraða sem þeim ber. Ljóst er taugaskemmdir vegna mýelínsskorts geta m.a. valdið minnistapi og vitsmunatapi. Hinsvegar veit ég ekki til, og tel ólíklegt að háir skammtar af B12-vítamíni séu vænlegir til að koma í veg fyrir minnistap. Skortur á B12-vítamíni er sjaldgæfur og aðallega að finna hjá fólki sem vantar ákveðinn efnisþátt (intrinsic factor) sem sér um að flytja vítamínið úr þörmunum inn í líkamann. Í slíkum tilfellum er vítamínið gefið sem stungulyf. Þeir sem neyta eingöngu grænmetis og mikillar fólínsýru geta þó átt á hættu að fá dulinn B12-vítamínskort með fyrrgreindum afleiðingum.

Kveðja,
Torfi Rafn Halldórsson,
lyfjafræðingur