Er beinþynning arfgeng?

Spurning:

Ég er 21 árs kona, og ég spyr: Er beinþynning arfgeng? Pabbi minn, sem er 45 ára hefur fengið staðfest að hann hefur beinþynningu. Hann hefur lélega liði, jafn lélega og væri hann kona. Bein hans tapa kalki hratt núna og ég er hrædd um að ég hafi erft eitthvað af þessu. Ég finn oft til í hnjánum. Í vinnu minni geng ég mikið, en ég er alltaf í góðum og þægilegum skóm. Ég hef líka oft verki í mjöðmum, sem oft leiða upp í bakið og valda sársaukastingum þar.
Hvað getur þetta verið? Ætti ég t.d. að taka inn kalk?

Kveðja, X.

Svar:

Sem betur fer er beinþynning ekki beint arfgeng. Réttara er að hún orsakast af blöndu arfgengra eiginleika og lifnaðarhátta. Yfir helming efnismagnsins í beinum okkar má rekja til erfðaþátta, en að því er virðist verður efnismagn beinanna sífellt háðara lifnaðarháttum, og ef svo ber undir ýmsum sjúkdómum, eftir því sem við verðum eldri.

Við erfum helminginn af eiginleikum okkar frá föður og hinn helminginn frá móður. Það hefur varla neina þýðingu hvort það er móðirin eða faðirinn sem er með beinþynningu. Í tilfelli föður þíns er ekki ólíklegt að hann hafi haft gigtarsjúkdóm um árabil – það getur, eitt út af fyrir sig orsakað kalktap (úrkölkun) úr beinum, og ef til vill hefur hann tekið lyf, sem hafa þá aukaverkun að framkalla rýrnun á beinum (beinþynningu). Hér hef ég sérstaklega í huga lyfið Prednisólón.

Þar sem þú ert 21 árs er ósennilegt að verkirnir sem þú hefur í hnjám og baki stafi af kalktapi úr beinum. Hvort þú ættir að taka inn kalk og D-vítamín fer eftir mataræði. Þú getur sjálf lesið meira um ráðlagða inntöku í kaflanum um beinþynningu (osteoporosis) hér á síðunum um gigt, bein og liði. Án mjólkur og osta er sjaldnast mögulegt að fá nóg af kalki úr fæðunni, en ég veit ekki hvort fæða þín er kalkauðug eða kalklítil. Mér þykir ólíklegt að þú eigir það meira á hættu að fá beinþynningu en hver annar, en það væri skynsamlegt að fylgja góðum ráðleggingum um forvarnir gegn beinþynningu.

Hvað varðar verkina sem þú nefnir, ættir þú að leita til heimilislæknisins þíns sem getur metið hvers eðlis þessir verkir eru og gefið góð ráð í framhaldi af því. Hugsanlegt er að þú þyrftir fjölbreyttari hreyfingu og einnig skiptir þyngd þín miklu máli. Mikilvægt er rækta líkama sinn vel og hlusta á kvartanir hans.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir.