Er Díazepam mjög hættulegt lyf?

Spurning:

Er Díazepam mjög hættulegt lyf? Um lyf og ábyrgð lækna.

Vel menntaður fjölskyldumaður, forstöðumaður fyrir stofnun og fræðimaður. Með allgóð efni og góða félagslega stöðu, sinnir hlutverki sínu við störf og heima eðlilega, lendir undir miklu álagi undanfarna mánuði. Tvö dauðsföll í alnánustu fjölskyldu, barn hans hættulega veikt á sjúkrahúsi, bæði börn hans flytja til útlanda vegna náms, þar sem annað á í verulegum erfiðleikum. Maðurinn er yfirhlaðinn störfum, fær brjóstverki og liggur í viku á hjartadeild. Framundan næstu vikur er ofboðslegt álag tímabundið varðandi embættiskyldur o.fl. Mikilvægur tími fyrir framtíð mannsins. Maðurinn er kvalinn af angist og kvíða. Hann íhugar sjálfsvíg.

Heilbrigðisstarfsmenn (geðlæknir, heimilislæknir og sálfræðingur) sem hann leitar til vilja ekki að hann fái Dízepam (lyf sem hann þekkir og hefur treyst á stundum áður og hefur komið honum yfir erfiða hjalla). Þeir vilja hins vegar óðfúsir gefa honum þunglyndislyf sem hann veit af fyrri reynslu að auka á vanlíðan hans um vikur áður en (rétt hugsanlega og þó varla) gagn verður af þeim. Hann íhugar stöðugt sjálfsvíg og telur sig hafa meðtekið þau skilaboð lækna að fyrr skuli hann framkvæma það en fá það lyf sem hann vill. Samkvæmt þessu er hlýtur Díazepam að vera mjög hættulegt lyf.

Hvers vegna er það þá á markaði? Hver er ábyrgð þessara heilbrigðisstarfsmanna ef mannslíf tapast vegna svona afstöðu? Þeir bera fyrir sig að eftir 3 slys fyrir áratug síðan sem ollu manninum verulegu varanlegu líkamstjóni hafi hann orðið háður verkjalyfjum. Það er rétt, en hann sigraðist á því og hefur verið án þeirra frá 1997. Fari maðurinn þá einu leið sem honum virðist opin, og hann íhugar vissulega alvarlega. Á þá ekki þetta fagfólk í raun sök á dauða hans fremur en hann sjálfur? Að framan er raunverulegt dæmi af þeim sem þetta ritar. Væri þetta fólk ekki sekt um manndráp af gáleysi (í raun, þótt sjálfsagt aldrei yrði tekið á því) ef það hrindir honum út í sjálfsvíg?

Svar:

Aðeins um lyfið Díasepam eða Valíum sem er sennilega þekktasta sérlyfjaheiti þess:

Díazepam er benzódíazepínafbrigði, sem hefur róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi. Verkun og notkun þess er því við neurósum, kvíða, spennu og svefntruflunum. Einnig hefur það verið notað við fráhvarfseinkennum drykkjusýki.

Sé lyfið gefið líkamlega hraustum einstaklingum í réttum skömmtum (venjulegur skammtur er ½ – 1 tafla tvisvar til þrisvar sinnum á dag) þá er lyfið ekki hættulegt. En að sjálfsögðu geta fylgt því aukaverkanir eins og t.d: Ávanahætta. Þreyta og syfja. Svimi, ógleði, höfuðverkur, lækkaður blóðþrýstingur, minnisleysi og vöðvaskjálfti hefur verið lýst. Öndunardeyfð kemur fyrst og fremst fram hjá öldruðum og lungnaveikum og við of hraða gjöf lyfsins.

Ef lyfið er notað í allt of stórum skömmtum fer það að verða hættulegt. Mjög háir skammtar lyfsins geta valdið öndunarstöðvun, meðvitundarleysi og losti. Einnig eykur lyfið áhrif áfengis, svefnlyfja og annarra róandi lyfja.

Stjórnun vélknúinna ökutækja samtímis notkun lyfsins er varasöm.
Benzódíazepínsambönd geta valdið ávana og fíkn. Kvíði, skjálfti, rugl, svefntruflanir, krampaflog, þunglyndi og óþægindi frá meltingarfærum geta komið í ljós, þegar notkun lyfsins er hætt, þótt það hafi verið notað í venjulegum skömmtum í skamman tíma.

Fyrir þennan einstakling sem þú tekur dæmi um getur díazepam reynst hættulegra en fyrir hinn „venjulega” mann. Þar sem að mjög mikil hætta er á því að hann falli aftur og verði háður díazepami þar sem að einkennin sem lýst er í málsgreininni hér að ofan geta öll komið fram þegar hann reynir að hætta. Þetta getur verið vandasamt mál og ég efast ekki um að þeir sérfræðingar sem koma að þessum manni vilja honum vel. Önnur kvíðastillandi lyf eins og t.d. Exan geta hentað mun betur fyrir þennan mann. Þar sem að kvíðastillandi verkun þess er álíka mikil og díazepams. En á móti kemur að ekki er mikil ávanahætta eða hætta á fíkn. Eitthvert nýju þunglyndislyfjanna geta hugsanlega líka hentað en varast ber að sum þeirra geta aukið hættu á sjálfsvígum í byrjun meðferðar.

Ég er ekki sérfræðingur í sjálfsvígum en tel samt sem áður að mjög erfitt sé að kenna öðrum um sjálfsvíg. Það er alltaf einstaklingurinn sem framkvæmir. Oft er sjálfsvíg framkvæmt í stundarbrjálæði og er ég viss um að flestir sem gera slíkt sjá eftir því. Þó svo að vandamálin hrannist upp og maður sjái enga leið út nema sjálfsvíg þá er það mjög eigingjörn afstaða. Það er ekki góð lausn að hlaupast frá vandamálum því þau lenda oftast bara á einhverjum öðrum, oft nánum ættingjum. Sá sem framkvæmir sjálfsvíg finnst hann vera laus allra mála. Það er mikil slálfselska því að sá og hinn sami skilur mjög marga einstaklinga eftir í sárum sem sumir hverjir kenna sér jafnvel um hvernig komið er.

Ef ég væri þessi maður eða aðstandandi hans myndi ég þiggja hjálp frá þeim sérfræðingum sem hann gengur til og takast á við vandann, það má alltaf búast vi&e
th; því að það taka tíma en það er þess virði þegar sá tími er liðinn.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur