Er dóttir mín ónæm fyrir hlaupabólu?

Spurning:
Sæll Doktor.
Ég er með eina spurningu fyrir forvitnis sakir. Dóttir mín fékk hlaupabólu tveggja mánaða gömul (smitaðist af systur sinni) en var í sjálfu sér ekkert lasin, bara bólótt. Mér var þá sagt að það væri ekki öruggt að hún yrði ónæm fyrir hlaupabólu þar sem hún væri svo ung og vírusinn gæti sloppið í gegnum ónæmiskerfið án þess að mynda mótstöðu. Þegar hún var 9 mánaða fékk hún svo ristil í vinstri síðuna sem mér skilst að tengist hlaupabólusmitinu. Þýðir það að vírusinn sé ennþá í líkamanum og er hún þá ónæm fyrir honum?
Með fyrirfram þökk fyrir svarið, Bólumamma

Svar:
Blessuð.Það er rétt að mjög ung börn sem fá hlaupabólu myndi oft ekki ónæmi og geta því fengið hlaupabólu aftur síðar á lífsleiðinni. Hins vegar hefur dóttirin fengið hlaupabóluna því ekki er hægt að fá ristil nema að hafa fengið hlaupabólu áður. Hlaupabóluvírusinn lifir alltaf í okkur og getur brotist fram sem ristill síðar á ævinni. Stúlkan fær ekki aftur hlaupabólu en getur fengið ristil.kveðja Þórólfur Guðnason