Spurning:
Er ég það sem kallast á ensku „compulsive liar”? Ég lýg alveg einstaklega mikið þessa dagana. Þetta hefur aukist gífurlega þetta árið. Ég lýg þó ekki nema ég sé nokkuð viss um að ég komist upp með lygina. Þó reyni ég yfirleitt að hafa lygina sem áhrifamesta. Ég hef til dæmis logið því að fólki sem ég þekki ekkert of vel, að ég sé veikur og ég ýjaði að því að ég gæti jafnvel dáið af þeim sökum. Það gerði ég til þess að komast úr smá vandamáli sem var í rauninni ekki vandamál. Svo hef ég lengi verið að plana að koma af stað þeirra sögu að ég sé dáinn (til dæmis á netinu) bara til þess að sjá hvort ég fái einhverja minningargrein.
Ég kemst upp með þessar lygar af því fólk veit að það getur treyst mér… enda er ég traustsins verður, því ég lýg ekki neinu sem gæti skaðað einn né neinn. Mér finnst bara gaman að geta komist upp með stóra lygi. En ég skrifa ykkur nú bara af því ég er farinn að verða hræddur um að einhver komist að þessu og missi allt traust á mér. Er eitthvað hægt að gera í þessu?
Svar:
Svar til „áráttulygara”.
Þú lýsir áhyggjum þínum yfir auknum lygum þínum að undanförnu. Einkum lygum, sem vekja á þér athygli, gera þig að einhverju leyti merkilegan eða sérstakan. Þá lýsir þú hugmyndum um að koma af stað þeirri sögu að þú sért dáinn, til þess að komast að því hvort einhverjir muni skrifa um þig minningargreinar.
Mér finnst þetta bera vott um óöryggi og skort á sjálfsvirðingu. Spurningin um hvernig öðrum líkar við þig er greinilega ofarlega í huga þér og þú ert augljóslega óöruggur um niðurstöðuna. Leið þín til að komast að því hver afstaða annarra er til þín er að gera þig veikan í merkingunni veikur/sterkur og biðja um vorkunn og meðaumkun. Það er hugsanlegt að þú fáir slíkt frá öðrum með þessum aðferðum og þá munu viðhorf annarra til þín byggja á því, en ekki virðingu eða aðdáun. Sterkur einstaklingur, með gott sjálfstraust og sjálfsvirðingu leitar auðvitað eftir viðhorfum annarra til sín sem byggjast á virðingu.
Mér finnst þetta vera þitt aðalvandamál, en notkun þín á stöðugum lygum vera tæki sem þú notar til að bregðast við vandamálinu. Ekki vandamálið sem slíkt. Ég ráðlegg þér því að leita þér aðstoðar hjá sálfræðingi, einkum til að styrkja sjálfsmynd og sjálfsvirðingu og leita leiða til að lifa lífinu þannig að þú öðlist virðingu samferðamanna þinna í stað vorkunnar og meðaumkunar.
Með góðri kveðju,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur