Er ég með magasár?

Spurning:

Sæl.

Það hefur verið mikið stress í vinnuni minni og ég hef veriðmeð nær stanslausan hungurverk alla daga. Einnig var þettasvona þegar ég var í prófum í háskólanum þannig að ég varekkert að kippa mér upp við þetta.

Núna eru rúmar 2 vikur frá því að allt stressið var búið enég fæ ennþá hungur verki, svona um 1-2 tímum eftirhádegismat. Ég fæ þá örsjaldan á kvöldin.

Á ég að hafa einhverjar áhyggjur af þessu? Getur verið að égsé með magasár? Ég veit að faðir minn fékk magasár þegarhann var á mínum aldri.

Með von um svar.

Svar:

Það er alltaf rétt að hafa samband við lækni þegar svona einkenna verður vart til að fá úr því skorið hvort og þá hvað sé að. Með þeim upplýsingum sem þú sendir er nær útilokað að segja til um hvort þú ert með magasár eða ekki. Það er þó vitað að erfðir spila inn í og þeir sem eiga foreldra sem fengið hafa magasár hafa meiri tilhneigingu til að fá sjúkdóminn einnig. Ekki eru allir sammála um þátt streitu í uppkomu magasára, en flestir geta þó verið sammála um að hún bæti ekki ástandið. Ég ráðlegg þér því eindregið að hafa sambandi við þinn heimilislækni en þangað til getur þú fylgt eftirfarandi ráðleggingum og séð hvort einkennin minnka ekki eitthvað. Forðastu fæði sem inniheldur mikið af fitu, lítið af trefjum og mikið kryddaðan mat. Borðaðu sex smærri máltíðir á dag en forðastu að borða stórar máltíðir. Drekktu mikið vatn, en forðastu mikið mjólkurþamb, það tímabundið þynnir sýruna í maganum en hvetur svo magann til meiri framleiðslu. Ekki drekka áfengi, ekki reykja og ekki drekka kaffi. Haltu neyslu á gosdrykkjum og ávaxtasöfum úr sítrusávöxtum í lágmarki. Stundaðu einhverja líkamsþjálfun, það minnkar streitu og álag. Forðastu að taka bólgueyðandi lyf s.s. ibufen, naproxen. Prófaðu sýruleysandi lyf og bismuth-sambönd sem hægt er að kaupa í apótekum án lyfseðils. Gangi þér vel,

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir