Er ég óeðlilega gleyminn?

Spurning:
Ég var að velta því fyrir mér hvort ég sé óeðlilega gleyminn. Ég er alveg ótrúlega gleyminn á nöfn. Ég man kannski ekki nafn á frægum leikara sem ég er kannski að tala um eða alþingismanni sem allir vita hvað heitir. Þetta er virkilega óþægilegt þegar ég er að spila Trivial Pursuit. Ég veit svarið en er stolið úr mér. Þetta á við um spurningarleiki almennt. Ég gleymi hinu og þessu t.d að gera hitt og þetta sem ég hafði samþykkt að gera fyrir einhvern. Getur eitthvað verið að eða verið eitthvað sálfræðilegt frekar en eitthvað líkamlegt?
Takk fyrir.

Svar:
Sæll.
Jú þetta er þekkt vandamál að muna ekki nöfn og hvað maður á eftir að gera.  Ómögulegt er að segja nákvæmlega hvers vegna þú átt erfitt með að muna þetta en margt getur komið til greina.  Athygli skiptir miklu máli.  Þeir sem eru með athyglisvandamál eiga erfitt með að muna svona hluti.  Þá getur skipulag skipt miklu máli. Ef upplýsingar fara ekki skipulega í minni er erfiðara að ná í þær.  Þau börn sem hafa verið með athyglisbrest lagast oft á fullorðinsaldri og minni verður betra.  Hægt er að laga þetta að einhverju leiti, t.d. dæmis með að æfa sig í endurtekningum.  Sem dæmi má nefna að þegar einhver kynnir sig þá þylur þú upp nafnið nokkrum sinnum í huganum og ef hægt er þá að tengja nafnið við eitthvað sjónrænt eða táknrænt fyrir þá persónu.  Mikilvægt er að þjálfa upp minni með endurtekningum og æfa sig í því reglulega.  Ef þú átt erfitt með að muna hvað þú átt eftir að gera þá skaltu fá þér minnisbók sem þú skrifar svona hluti í.
gangi þér vel

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur