Er ég ólétt?

Spurning:
Sæl Dagný!

Ég var að velta því fyrir mér hvort að ég væri ólétt. ég er hreint ekki viss, þó hef ég orðið ólétt 2svar áður, einu sinni farið í fóstureyðingu og einu sinni misst fóstur. En þannig er mál með vexti að ég er búin að vera á túr í 7 ár og hef alltaf haft alveg reglulegar blæðingar. Svo er ég búin að vera á pillunni í 3 ár og það er alveg sama sagan. En það sem að er að er að ég á að vera byrjuð á túr, fyrir viku síðan en er ekki byrjuð ennþá, ég finn fyrir einhverjum verkum sem að eru eins og túrverkir og einnig þá finn ég fyrir smá óþægindum í samförum, svona eins og að það sé verið að þrýsta á eitthvað inni í leginu á mér, það hefur samt ekki með nýja bólfélaga að gera því að hann er bara einn! Ég frestaði blæðingum í síðasta mánuði, en læknirinn sem að lét mig hafa pilluna sem ég er á núna sagði að það væri allt í lagi að gera það. Ég tók þungunarpróf í gær og það kom neikvætt! Hvað er að mér?? Af hverju byrja ég ekki á túr??

Vona að þú svarir fljótt og vel

Takk fyrir frábæra síðu

xxxxxxxx

Svar:
Hafir þú tekið pilluna á réttan hátt eru hverfandi líkur á að þú sért ólétt. Miklu líklegra er að einhver óregla hafi komist á blæðingarnar þegar þú frestaðir þeim í síðasta mánuði. Haltu bara áfram á þinni pillu eins og leiðbeiningarnar segja til um og taktu síðan nýtt þungunarpróf eftir viku. Ef það er jákvætt skaltu strax hætta að taka pilluna og tala við kvensjúkdómalækninn þinn en ef það er neikvætt er alveg ljóst að þú ert ekki ólétt og þá ættir þú líka að hafa blæðingar í næsta 7 daga pilluhléi.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir

Svarið