Er ég orðin háð herbalife?

Spurning:

Ég hef tekið herbalife í u.þ.b. ár með hléum. Núna er ég byrjuð að belgjast út þótt ég haldi áfram að borða eins og venjulega. Það er ekki langt síðan ég hætti á því, svona 1 vika. Systir mín heldur að ég hafi ekki drukkið nóg vatn með því, sem passar mjög vel en ég hreyfði mig reglulega og passaði að borða alls ekki fyrr en 4 tímum eftir að ég tók herbalife. Svo má ég ekki borða neitt mikið þá belgist ég út. Hvað er að gerast? Er ég orðin háð herbalife? Hvað get ég gert til að hreinsa efnið út úr líkamanum? Er ekki bara fullt af herbalifebirgðum í líkamanum mínum? Systir mín benti mér líka á að drekka mikið vatn og hreyfa mig á meðan ég væri að losa mig við efnið. Hún sagði mér að gott væri að taka inn losandi pillur sem heita Apple slim (apple vinegar-extraxt+vitamins). Óska eftir svari fljótt.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Það sem gæti hafa gerst á þessu ári er að líkaminn þinn hefur aðlagast mjög lítilli orkuinntöku þar sem þú hefur sennilega verið að neyta mjög fárra hitaeininga og núna þegar þú hættir að taka Herbalife og ferð að borða eðlilega aftur, þá tekur þú inn meiri orku en líkaminn þarfnast. Ég myndi samt ekki gefast upp og byrja aftur því það er ekkert eðlilegt við það að lifa á dufti alla ævi. Það sem þú þarft að gera er að skoða mataræðið og hreyfinguna. Fyrsta ráðið er að skera niður fituneyslu því fitan er svo drjúg í að gefa okkur orku. Ef maturinn er fitulítill þá er hægt að hafa skammtana mun stærri fyrir sama magn hitaeininga – getur sem sagt borðað meira. Notaðu magrar mjólkurvörur; drekktu undanrennu eða fjörmjólk, smyrðu brauðið mjög lítið eða alls ekki. Forðastu síðan sætindi og mat sem er feitur. Skoðaðu gjarnan innihaldslýsingar. Borðaðu eins og þig lystir af grænmeti og ávöxtum – næringarríkt og orkulítið! Haltu síðan áfram að drekka mikið vatn þó svo að ég geti ekki sagt til um það hvort efnið hafi safnast fyrir í líkamanum (finnst það ólíklegt), en vatn er gott fyrir þig og gefur ekki orku. Það sem þú getur gert til að auka brennsluna er að fara í líkamsrækt. Um leið og vöðvarnir stækka þá þarf líkaminn á meiri orku að halda, jafnvel í hvíld.
Gangi þér ofsalega vel.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur