Er eðlilegt að borða í svefni?

Spurning:

Í mörg ár hefur pabbi minn vaknað upp á nóttunni (yfirleitt á sama tíma) og fengið sér að borða. Hann gengur inní eldhús opnar ísskápinn, borðar, gengur frá eftir sig og fer aftur að sofa. Hann man ekki eftir þessu. Er þetta eðlilegt? Ég er hrædd um að hann verði sér að voða því hann virðist ekki vera með meðvitund.

Svar:

Hér er um að ræða hegðun sem getur komið fyrir hjá hverjum sem er, þarf alls ekki að vera sjúklegt, en getur vissulega verið hvimleitt og truflandi. Mjög líklegt er að viðkomandi sé þreyttur og að þetta komi fyrir á fyrsta þriðjungi nætur, eða á fyrstu þrem klukkustundunum í svefni. Þar sem um er að ræða truflun á djúpsvefni, þarf ef ástandið er viðvarandi að athuga hvað það er sem er að trufla svefninn, með því að gera svokallaða svefnmælingu. Jafnframt þarf að útiloka að um sé að ræða flogaveiki, en slíkt ástand getur verið ástæðan í undantekningartilvikum. Ef minnsti grunur leynist um slíkt þarf viðkomandi að leita læknis. Jafnframt þarf viðkomandi að athuga alla þá þætti í lífi sínu sem hugsanlega geta tengst ástandinu, (þreyta, álag, streita o.s.frv.) og reyna að minnka þá eða fjarlægja, ásamt því að reyna að hafa svefnvenjur eins reglulegar og kostur er. Lyfjameðferð er möguleg og eru þá oftast gefin róandi lyf. Þessi kostur er þó varasamur þar sem slík lyf hafa áhrif á svefninn sjálfan og geta létt hann og minnkað gæði hans. Ef þessi kostur er valinn, þarf að fara mjög gætilega og í fullu samráði við lækni, sérstaklega varðandi það hvernig lyfjameðferðinni er hætt.

Kveðja,
Júlíus K. Björnsson, sálfræðingur