Er eðlilegt að fullorðinstennur komi áður en barnatennurnar eru farnar?

Spurning:

Sæll og blessaður.

Það sem mig langar að vita er hvort það er eðlilegt að fullorðinstennur komi áður en barnatennurnar eru farnar. Sonur minn sem er nýorðinn 6 ára er með lausar framtennur í neðri góm. Þær skaga fram í vörina og nýjar tennur eru að koma fyrir aftan. Er mögulegt að nýju tennurnar komi ekki rétt upp fyrst hinar eru ekki farnar? Á að reyna að losa barnatennurnar í burtu?

Ég hef miklar áhyggjur af fullorðinstönnum sonar míns vegna þess að ég sjálf var með tannvöntun og tannsmæð. Mig vantaði 11 fullorðinstennur, alla endajaxla, tvo 12 ára jaxla og síðan fimm aðrar tennur.

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Alltítt er að fullorðinstennur komi fram að baki undanfarandi barnatanna áður en þær síðarnefndu falla eins og þú lýsir í bréfi þínu. Varlega skyldi farið í að fjarlægja barnatennurnar því ónauðsynleg þrengsli fullorðinstannanna gætu hlotist af slíkri aðgerð. Í allflestum tilvikum leysast þessi mál án nokkurra afskipta. Biddu tannlækninn ykkar að líta á þetta – sjón er sögu ríkari.

Gangi þér vel.
Ólafur Höskuldsson, barnatannlæknir