Er eðlilegt að vera á öllum þessum lyfjum?

Spurning:
Góðan daginn.
Er það eðlilegt að maður sem lenti í bílslysi árið 2000 og mjaðmagrindin brotnaði og var hann spengdur saman á sjö stöðum og kvartar stöðugt um verki og er nýkomin úr meðferð sé ávísað öllum þessum lyfjum? Hér kemur listinn og hversu margar á dag hann eigi að taka og ekki er hann þunglyndur, þetta er farið að valda miklu veseni hérna á heimilinu:
Seroxat 20mg 3*1
Trilafon 2mg 2*1
Rivotril 0,5mg 1*1
Nozinon 25mg 2*1
Lexotan 3mg 1*3
Flunitrazepam 1mg 1*1
Parkodin Forte 2*1
Viagra 100mg 1*1 p.n
Svona lítur nú lyfjakortið út hjá alkanum nýkominn af Vogi en segist ekki vera alki og ekki ræðandi við hann því geðillskan er að drepa hann og ef ég voga mér að spyrja fæ ég alltaf sama svarið. Ert þú læknir? Er þá ekki nærtækast að spyrja lækni:) Með von um skjót svör. kv, ein ráðþrota

Svar:

Útilokað er fyrir aðra en þá sem hafa haft viðkomandi í meðferð að dæma um hvort hann þurfi á lyfjunum að halda eða ekki. Greinilegt er af lyfjagjöfinni sem maðurinn er á að sá læknir sem hefur haft hann í meðferð álítur hann þurfa fjölbreytta lyfjameðferð. Þarna er um að ræða fyrst og fremst ýmis geðlyf, bæði þunglyndislyf, kvíðastillandi lyf, sefandi lyf, og verkjalyf. Á hinn bóginn er það náttúrulega ekki gott ef honum líður svo ekki nógu vel þrátt fyrir lyfjagjöfina. Það ber að hafa í huga að það kostar mikil átök fyrir mann sem hefur verið í einhverri ofneyslu áfengis eða lyfja. Það að hætta því tekur mikið á viðkomandi og getur valdið ófyrirséðum skapgerðarbreytingum. Einnig gæti slysið sem hann lenti í ennþá haft sín áhrif bæði með verkjum og eins eftirköst áfallsins. Ekki er ólíklegt að lyfjunum sé í og með ætlað að draga úr þessum einkennum öllum. Ég geri svo sem ekki ráð fyrir öðru en einhverjir aðrir sem þú hefur rætt við áður um þetta vandamál hafi sagt þér að þú þurfir að sýna þolinmæði. Ég ætla nú samt að gera það einnig. Vanlíðanin sem veldur geðillskunni er eitthvað sem mikilvægt er að vinna á. En það tekur tíma og þolinmæði fyrir alla.Ég sé ekki að taka lyfjanna eigi að valda geðillsku og hvatvísi hjá manninum. Þar er frekar um sjúkdómseinkenni eða eftirköst af slysinu að ræða. Best væri ef hann samþykkti að þið töluðuð saman við lækninn og rædduð þar um líðan hans og meðferðina. Þannig gætuð þið unnið betur saman að því að koma líðan hans og og þar með þinni í betra horf.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson, lyfjafræðingur