Er erlendis, vantar aðstoð vegna þunglyndis?

Spurning:

Sæll.

Ég er stödd erlendis og finn fyrir miklu þunglyndi, hvað er til ráða? Ég tala tungumálið ekki fullkomlega og því er ég smeyk við að leita mér hjálpar. Mér þætti vænt um að fá einhverjar ráðleggingar frá ykkur.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Kæra vinkona.

Erfitt er að svara þessu beint út. Margir þættir spila inní. Eins og hvað verðurðu lengi í þessu landi? Hvenær fórstu fyrst að verða vör við einkennin? Hvar ertu í heiminum og er einhver með þér sem þú getur talað um ástandið við?

Ef þú ert á heimleið fljótlega þá er e.t.v. best að takast á við ástandið um leið og þú kemur heim. Ef ekki þá er nauðsynlegt fyrir þig að leita þér aðstoðar. Leita þér lækninga. Liggur þar beinast við að fá aðstoð á bráðamóttöku geðsjúkrahúss. Nú er slík þjónusta mismunandi eftir löndum og heimsálfum. En ef þú veist ekki um slíka bráðamóttöku og getur ekki fundið hana á netinu eða í upplýsingum aðgengilegum almenningi þá getur þú leitað til fulltrúa íslenskra yfirvalda erlendis s.s. sendiráða eða ræðismanns sem geta aðstoðað þig við að fá rétta þjónustu og hjálpað þér vegna tungumálaörðuleikana.

Ef ég vissi í hvaða landi þú værir og hvar þá gæti ég e.t.v. hjálpað á enn praktískari hátt, en þetta ætla ég að láta duga. Ég hvet þig enn á ný að sitja ekki aðgerðalaus heldur leita strax leiða við að komast undir læknishendur.

Bestu Kveðjur,
Héðinn Unnsteinsson framkvæmdastjóri Geðræktar