Er fitubrennsla alltaf jöfn um líkamann?

Spurning:

Sæl og blessuð.

Mig langar að vita hvort að fitubrennsla sé alltaf jöfn um allann líkamann við áreynslu eða hvort brennslan dreifist meira á það svæði líkamans sem er í áreynslu? T.d. ef ég æfi einungis hnébeygju, verður þá ekki meiri fitubrennsla á lærunum og rassinum heldur en t.d. maganum eða helst hún jöfn yfir allann líkamann??

Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæll.

Fitufrumur líkamans eru eins og blóðið, tilheyra öllum líkamanum en ekki ákveðnu svæði líkamans. Það er ekkert til sem heitir fótablóð eða magablóð og því ekki neitt heldur sem heitir fótafita eða magafita sem hægt er að taka af með æfingum fyrir það svæði. Með reglubundinni hreyfingu nýtir líkaminn fitu úr fitufrumunum hér og þar í blóðstreyminu. Með því að styrkja vöðvana mótar þú vöxtinn sem sést vel þegar húðfitan er í hæfilegu magni á líkamanum. Þú eykur einnig grunnbrennslu líkamans með því að styrkja vöðvana og gerir líkamann hæfari til að losa sig við aukakílóin og halda þeim á brott til lengdar. Lykillinn að fínu formi er reglubundin þol- og styrktarþjálfun ásamt hófsemi í neyslu.

Gangi þér vel.

Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari