Er hægt að auka líkurnar á að eignast stelpu?

Spurning:
Ég og kærasti minn ætlum að reyna að eignast barn fljótlega og viljum bæði helst eignast stelpu. Nú hafa allir þjóðsögur um að hægt sé að auka líkur á að eignast stelpu (eða strák) með sérstökum ,,aðferðum". Nú leikur mér forvitni á að vita hvort þetta sé satt, og ef svo hvað get ég gert til að auka líkurnar á því að eignast stelpu?
Með fyrirfram þökk, Stelpuóð

Svar:
Komdu sæl.
Engar rannsóknir hafa getað sýnt fram á að ein aðferð gefi meiri líkur á stelpugetnaði en önnur þótt ýmsar kenningar hafi verið settar fram. Meðal þess sem rætt er um er að sáðfrumur með kvenerfðaefni syndi hægar en lifi lengur en sáðfrumur með karlerfðaefni og því skuli parið hafa samfarir 3 dögum fyrir egglos til að eignast stelpu en við egglos til að eignast strák. Einnig hafa sumir viljað halda því fram að betra sé að konan sé undir við samfarirnar ef eignast á stelpu en ofaná fyrir strák. En þessar kenningar eru algerlega óvísindalegar og ekkert á þeim að byggja. Svo þá er bara að treysta á Guð og lukkuna og muna að kynið skiptir engu máli móti því að barnið sé heilbrigt.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir