Er hægt að bólusetja gegn hlaupabólu?

Spurning:
Ég er 51 árs og hef ekki fengið hlaupabólu. Þetta er nokkuð algengt í fjölskyldu minni en þeir sem hafa fengið hlaupabóluna hafa orðið mjög veikir. Þess vegna langar mig til að vita hvort hægt sé að bólusetja við hlaupabólunni og ef það er hægt er þá einhver hætta á aukaverkunum?
Bestu þakkir.

Svar:

Jú, það er hægt að bólusetja gegn hlaupabólu og bóluefni er á markaði hér sem heitir Varilrix. Fullorðnir þurfa tvo skammta af bóluefninu með 1-2 mánaða millibili. Aukaverkanir eru fáar og ekki alvarlegar, hiti og væg útbrot; í stöku tilfellum geta komið væg hlaupabóluútbrot þar sem hér er um lifandi bóluefni að ræða. Ef það er óljóst hvort þú hefur raunverulega fengið hlaupabólu þá er hægt að taka úr þér blóðprufu og mæla mótefni gegn hlaupabólunni og þannig sjá hvort þú hefur fengið hana eða ekki. Ef þú hefur fengið hana þá er engin ástæða til að bólusetja. Þú getur rætt þetta við þinn lækni sem myndi bólusetja þig ef ykkur kemur saman um það. Skammturinn af bóluefninu kostar um 6.000 kr.

Kveðja,

Þórólfur Guðnason