Er hægt að þrengja legháls/legop?

Spurning:
Ágætu læknar og aðrir aðilar. Eftir að ég eignaðist barn finnst mér að legopið sé alltof vítt. Ég geri alltaf grindarbotnsæfingar en þær hafa ekki náð að draga legið almennilega saman. Ég er viss um að í fæðingunni hefði ég átt að vera betur saumuð saman að neðan. Í samlífi er þetta alveg glatað og nánast bara ekki hægt. Mér datt í hug hvort hægt sé að sprauta efni undir húð í leghálsinum eða þrengja hann með öðrum hætti, eins og með nýrri húð?
Bestu kveðjur.

Svar:
Ágæti fyrirspyrandi.

Í fæðingu getur það komið fyrir að vefir við leggangsop rifni við rembing og fæðingu eða séu klipptir. Það væri vert hjá þér að ræða við þinn lækni hvort e.t.v. hafi ekki náðst að fá nægan styrk í vefi þegar saumað var saman. Sé svo væri e.t.v. hægt að gera við örið með lítilli aðgerð. Hafir þú ekki rifnað en hafir þessi óþægindi þá kæmu grindarbotnsæfingar helst til greina undir umsjá sérfróðs fólks, lækna, sjúkraþjálfara o.fl.

Bestu kveðjur,

Arnar Hauksson dr med.