Er hægt að fjarlægja alla fæðingarbletti með laser?

Spurning:

Sæl.

Mig langar að vita hvort að hægt sé að fjarlægja alla fæðingarbletti með laser. Ef svo er ekki, hvaða bletti er ekki hægt að fjarlægja? Hvað kostar að láta fjarlægja fæðingarbletti með laser? Hvar er hægt að fá svoleiðis meðferð? Og að lokum ef ekki er hægt að fjarlægja alla fæðingarbletti hvernig snýr maður sér þá í því að láta taka þá?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Komdu sæl/sæll. Þakka þér fyrirspurnina.

Meðferð með ljós-geisla getur eytt öllum blettum, ljósum og dökkum, hvar sem er af líkamanum. Hins vegar vilja læknar fjarlægja bletti í aðgerð sem eru dökkir, mislitir, upphleyptir og etv. stækkandi. Ef þú ert með slíka fæðingabletti þá ráðlegg ég þér að leita til lýtalæknis/alm. skurðlæknis sem fjarlægir blettinn/blettina með smá skurðaðgerð í staðdeyfingu. Nú til dags þegar húðkrabbamein hefur aukist um 200-300% á s.l. áratug vilja læknar fá að taka alla slíka bletti – þó ekki væri nema einn – niður að rót til að senda til vefjagreiningar til að vita hvers kyns frumurnar í honum eru. Með því að brenna í burtu bletti þá vitum við ekki hvort frumurnar voru góð- eða illkynja. Reynist vera um frumubreytingar að ræða þá þarf fólk að fara árlega í eftirlit vegna blettanna og láta fylgjast með þeim.

Kostnaður vegna ljós-geisla meðferðar ræðst af því hversu mikið er af þeim.

Laser-lækning ehf. í Domus Medica við Egilsgötu 3 í Reykjavík býður upp á meðferð með ljós-geisla tækni sem eyðir blettum á líkama. Vil ég benda á pistil minn á Doktor.is og heimasíðu Laserlækningar, þar sem nálgast má frekari upplýsingar um meðferðina auk þess sem þar er að finna myndir fyrir og eftir meðferð.

Kveðja,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu