Spurning:
Sæl. Ég á eitt barn og er að hugsa um að koma með næsta. Síðasta meðganga gekk brösuglega í byrjun og þurfti ég að fara nokkrum sinnum á sjúkrahús og fá næringu í æð vegna lystarleysis og ógleði. Nú þegar ég er farin að huga að næstu meðgöngu er ég að velta fyrir mér hvað ég geti gert til að byggja líkamann upp fyrir átökin (fyrir mér eru fyrstu 18 vikurnar átök). Hvaða vítamín ætti ég að taka? Einhverskonar fjölvítamín, vítamín fyrir barnshafandi konur eða eitthvað annað? Gæti það hjálpað að byrja núna að sötra engifersoð eða te? Er eitthvað annað sem þið getið bent mér á? Með fyrir fram þökk
Svar:
Það er svo sem ekki margt hægt að gera til að fyrirbyggja meðgönguógleði en það er ýmislegt hægt að gera til að byggja upp líkamann þannig að hann þoli betur ógleðina og næringarskortinn sem fylgir henni. Svo er reyndar ekkert víst að þó þú hafir verið svona slæm síðast þá verðir þú það aftur. En það er gott að byrja að taka fjölvítamín með a.m.k. 400 míkróg. af fólínsýru og borða próteinríkt fæði og gnægð af grænmeti og ávöxtum. Svo er líkamlegt þol til bóta og ráðlegt að stunda einhverja líkamsrækt að staðaldri bæði fyrir meðgönguna og á henni (reyndar alla ævi) og fara út í dagsbirtu a.m.k. 15 mínútur á hverjum degi. En þótt þú sötraðir engiferte í marga mánuði fyrir meðgöngu myndi það ekki hindra ógleðina þótt það geti slegið á hana þegar hún er til staðar.
Vonum bara að þetta gangi betur núna en síðast.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir