Er hægt að lækna borderline sjúkdóm?

Spurning:

Góðan daginn!!!
Mig langaði að forvitnast um það hvernig hægt er að lækna borderline sjúkdóma?
Mér þætti mjög gott ef að þið hefðuð tök á að svara því.
Takk, takk.

Svar:
Góðan daginn.
Já þetta er nú stór spurning. Í fyrsta lagi er ekki hægt að tala um borderline eða jaðarpersónuleikaröskun sem sjúkdóm. Frekar er um að ræða karaktervandamál sem kemur ekki í tímabilum eins og flestir aðrir sjúkdómar. Einnig hafa ekki fundist neinar líkamlegar skýringar á þessu og ekki eru einu sinni allir á því að þetta eigi að vera í greiningarkerfum yfirleitt.  En meðferð er afar erfið og löng. Bæði þarf lyfjameðferð til að vinna á ákveðnum þáttum sem tengjast þessari röskun, t.d. lyf vegna depurðar og kvíða. Lyfin virka aftur á móti ekki á þá karakterbreytingu sem er nauðsynleg. Til þess þarf langtíma viðtalsmeðferð sem getur tekið 2-5 ár og oft lengur. Yfirleitt er miðað við að einstaklingurinn sé bæði í hópmeðferð sem og einstaklingsmeðferð. Helstu meðferðir eru byggðar á dýnamískum grunni en einnig hafa aðlagaðar hugrænar meðferðir verið í þróun. Lítið hefur verið rannsakað um árangur slíkra meðferða. Þó hafa ákveðnar dýnamískar meðferðir gefið ágætis árangur sem og svokölluð díalektísk atferlismeðferð. Langtímaáhrif meðferða þarf aftur á móti að skoða betur.
Með kveðju,

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur