Er hægt að minnka líkur á fósturláti?

Spurning:
Hæ hæ. Ég er ung kona og var að komast að því í gærkveldi að ég væri þunguð, komin stutt á leið, aðeins 4-5 vikur, en allavega ég fann á mér að ég væri ólétt, búin að vera frekar þreytt og skrítin. Málið er það að ég á litla prinsessu. Áður en ég átti hana hafði ég misst fóstur. Ég hef heyrt að það sé aukin hætta á því að ég missi fóstur vegna þess ég hef misst áður. Er eitthvað sem ég get gert til að koma í veg fyrir fósturlát? Ég er byrjuð að taka fólinsýru og 1/2 barnamagnýl á dag, búin að gera það núna í 3 vikur (þetta er sem sagt plönuð þungun) en ég get ekki að því gert að vera taugaveikluð. Er eitthvað sem þú getur sagt til að róa mig? Ég vona það!

Svar:
Það er rétt að hafi kona misst fóstur áður er aukin hætta á fósturláti. Það er lítið hægt að gera til að koma í veg fyrir fósturlát en þú gerir rétt í því að taka fólínsýru og mögulegt er að barnamagnýlið hjálpi til. Taktu það bara rólega, borðaðu vel, hreyfðu þig úti, sofðu a.m.k. 8 tíma á sólarhring og vertu góð við sjálfa þig. Ef þetta fóstur fer skaltu tala við góðan kvensjúkdómalækni og bera undir hann hvort möguleiki geti verið á einhverjum undirliggjandi sjúkdómum sem valda fósturláti hjá þér.

Gangi þér vel.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir