Er hægt að ná þessu lyfi úr líkamanum?

Spurning:

Sæll Doktor.
Getur þú gefið mér ráð?
Ég var látinn taka lyfið Zitromax, tvær töflur í einu. Ég er búinn að vera með hausverk og svima í marga daga, er hægt að ná þessu lyfi úr líkamanum með einhverjum hætti? Ég get ekki verið svona lengur, minn læknir segir að ég verði bara að bíða.

Kveðja,
Einn í svima

Svar:
Ég verð að taka undir með lækninum að ekki er um nein sérstök ráð að ræða til að flýta útskilnaði lyfsins. Venjulega hverfur það úr líkamanum á 2-4 dögum. Sundl/svimi og höfuðverkur teljast til sjaldgæfra aukaverkana af lyfinu, þ.e. 0,1-1% þeirra sem taka það, fá þessar aukaverkanir. Ef þetta ástand batnar ekki eftir 2-4 daga frá því að þú tókst lyfið er ástæða til að athuga hvort eitthvað annað valdi því.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur