Er í lagi að hafa kött á heimili með nýbura?

Spurning:

Ég ætla að spyrja um hvort það sé í lagi að hafa kött á heimilinu þegar ég er búin að eiga. Ég hef átt kött í 3 ár og hann hefur verið sprautaður reglulega, hann er inni-köttur en fer mikið úr hárum.

Ég á að eiga í kringum páskana. Ég hef hugsað mér að nýta heimaþjónustu ljósmæðra og fara heim af fæðingardeildinni eins fljótt og kostur er.

Svar:

Sæl.

Þér ætti að vera óhætt að lofa kettinum að halda áfram að eiga heima hjá ykkur. Gættu þess bara að hann sé ekki í rúminu ykkar eða leggist í vöggu barnsins og fáðu endilega eitthvað við hárlosinu hjá honum. Það eru til vítamín og efni sem minnka þetta vandamál. Það breytir engu gagnvart barninu hvort þú ferð beint heim til kattarins eða ekki fyrr en eftir 3 daga, svo þú skalt endilega nýta þér það þjónustuform sem þér hugnast best.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir