Er í lagi að nota vatnlosandi efni á meðgöngu?

Spurning:
Kæra ljósmóðir
Ég er komin 8 vikur á leið. Er í lagi að drekka vatnslosandi te frá herbalife? Ég er með mikinn bjúg.

Svar:
Það er yfirleitt ekki ráðlegt að nota nein vatnslosandi efni á meðgöngu þar sem þau hafa einnig áhrif á vatnsbúskap barnsins og geta skaðað viðkvæm nýru þess. Það sem er áhrifaríkast í baráttunni við bjúginn er hreyfing, sund, vatnsdrykkja, sleppa sykri og óhóflegu salti í mat og hvílast vel e.t.v. með hærra undir fótum. Svo gefa stuðningssokkar oft góða raun ef mikill bjúgur er á fótum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir