Er í vaxtarrækt og vantar ráð?

Spurning:

Sæl.

Þannig er mál með vexti að ég fjárfesti í handlóðum fyrir nokkru. Lóðin eru 4 kg hvort og byrjaði ég að nota þau nokkuð markvisst fyrir u.þ.b. 3 mánuðum. Ég geri aðallega 3 æfingar með þessum lóðum en þær eru eftirfarandi: stend beinn og lyfti þeim sitt á hvað til að þjálfa upphandleggina (geri þetta 400 sinnum á hvern handlegg) stend beinn og lyfti höndunum út þannig að þær eru í beinni línu við axlir (geri þetta 50 sinnum) stend beinn og held þeim niður með síðunum og lyfti mér upp á tánum til að þjálfa kálfa. Það sem ég er að velta fyrir mér er í fyrsta lagi hvaða aðrar æfingar ég get gert með þessum lóðum til að þjálfa vöðva líkamans og í öðru lagi hvort þessi lyftufjöldi sem ég geri sé mikill, svona meðal eða ekki nægur miðað við að ég er 18 ára strákur sem aldrei hefur lyft áður.

Með von um svar!

Verðandi vaxtarræktarkóngur.

Svar:

Sæll.

Eins og ég skil þína lýsingu, geta a.m.k. tvær þessara æfinga (fyrstu tvær) sem þú ert að gera gert þér meira slæmt en gott þegar til lengri tíma er litið. Sérstaklega vegna þess hve þú gerir margar endurtekningar og það að þú skulir gera alltaf sömu æfingarnar.

Það er afskaplega erfitt að lýsa æfingum á prenti án mynda því auðvelt er að misskilja æfingarnar. Ég bendi þér því á að fara á líkamsræktarstöð og fá leiðbeiningar hjá þjálfara.

Einnig get ég bent þér á myndband sem ég gaf út nýverið þar sem gerðar eru ýmsar góðar æfingar með handlóðum. Myndbandið fæst í Hreyfingu s. 568 9915 þú getur einnig pantað slíkt á hreyfing@hreyfing.is. Svo eru í leikfimiþáttunum á stöð 2 á morgnana alltaf annað slagið ýmsar góðar æfingar með lóðum.

Það er mikilvægt að gera einnig æfingar fyrir fleiri vöðvahópa s.s. kviðvöðva, lærvöðva, bakvöðva ofl. Það er ekki skynsamlegt að gera alltaf sömu æfingarnar og þjálfa einungis fáa vöðvahópa. Þá er hætt við meiðslum.

Haltu endilega áfram að æfa og um að gera að leita sér ráða til að sem mestur árangur náist.

Gangi þér vel.

Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari