Er jafn skaðlegt að púa?

Spurning:
Hæ. Vinur minn er reykingarmaður en hann bara ,,púar". Ég heyrði að það geti verið næstum jafn skaðlegt og þegar maður tekur ofan í sig. Mín spurning er sú að hver eru skaðlegu áhrifin af sígarettunum þegar maður tekur ekki reykinn ofan í sig?

Svar:

Skaðsemin er minni ef reykurinn er ekki dreginn niður í lungun. Það er þó næsta ómögulegt að ekkert fari niður í lungun. Einnig ber að hafa í huga að vinur þinn verður fyrir óbeinum reykingum af reyknum sem hann andar að sér. Þegar sígaretta brennur verður til svokallaður hliðarreykur, vitað er að þessi hliðarreykur inniheldur talsvert meira magn af ýmsum skaðlegum efnum en meginreykurinn sem reykingamaðurinn dregur ofan í lungun, m.a. vegna þess að hann myndast við lægra hitastig. Þeir sem reykja án þess að draga reykinn niður í lungun eru líka í sömu hættu og reykingamenn að fá krabbamein í vör, munnhol og háls. Svo er rétt að hafa í huga að á ótrúlega stuttum tíma myndast vanamunstur sem erfitt er að venja sig af. Þetta gildir örugglega um reykingar vinar þíns.

 

 

 

Dagbjört Bjarnadóttir ráðgjafi hjá Ráðgjöf í reykbindindi.