Er körfuboltaiðkun óæskileg á meðgöngu?

Spurning:
Ég er nýbúin að uppgötva að ég er ófrísk, og er aðeins komin á fimmtu viku (þriðju frá frjófgun). Ég spila körfubolta einu sinni í viku, og var einmitt búin að lesa á síðunni ykkar að körfubolti teldist til óæskilegra íþrótta fyrir ófrískar konur. Gildir það um alla meðgönguna, eða kannski bara þegar líður á (t.d. þegar á annað skeið meðgöngu er liðið)? Mér þætti afskaplega vænt um að fá svar sem fyrst, því hvorki vil ég skaða fóstrið, né missa af þessari uppáhaldshreyfingu að óþörfu.

Svar:
Körfubolti getur ekki talist æskileg íþrótt á meðgöngu þar sem um snöggar hreyfingar og pústra er að ræða. Aðallega er hætta á að konan skaðist vegna mýkingar á liðböndum, en einnig geta pústrar komið af stað fylgjulosi sem getur skaðað móður og barn. Þessar hættur eru þó meiri eftir því sem líður á meðgönguna og sem stendur er líklega í lagi að stunda körfubolta eitthvað áfram. Síðan verður þú bara að finna þér einhverja aðeins "mýkri" íþrótt til að stunda þar til þú hefur jafnað þig eftir fæðinguna. Göngur, hjólreiðar, yoga, sund – allt eru þetta góðar íþróttir á meðgöngu.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir