Spurning:
Kæri Arnar.
Ég er 43 ára og var hjá kvensjúkdómalækni vegna mikilla blæðinga og óþæginda í mörg ár. Hann vill fjarlægja legið og mig langar að spyrja: er þetta hættuleg aðgerð og hvað er kona lengi að jafna sig eftir slíka aðgerð?
Svar:
Kæri fyrirspyrjandi.
Ef þú hefur verið í eftirliti og meðferð hjá lækni í mörg ár sem vill fjarlægja legið úr þér, þá á hann sömuleiðis að hafa upplýst þig rækilega um kosti, galla og aukaverkanir. Allt annað sæmir ekki, eða hvað finnst þér sjálfri?
Það fer eftir ýmsu hvernig til tekst. Oftast eru þetta meðal-léttar aðgerðir fyrir sjúkling. En það er hægt að gera þær á marga vegu. Þar fer eftir stærð legs, heilsu og ástandi konu og hvaða aðgerðartækni viðkomandi sjúkrahús/læknir hefur upp á að bjóða, (speglunaraðgerð eða opin aðgerð). Sömu aukaverkanir geta verið við þær og allar aðrar aðgerðir, blæðingar, sýkingar, blóðtappamyndun o.fl., þó allt þetta sé mjög sjaldgæft og áhættan minnkuð með RÉTTUM upplýsingum og undirbúningi fyrir aðgerðina. Dvöl á sjúkrahúsi eftir aðgerð er oftast stutt, frá 2 dögum upp í 5-7 daga í lengsta lagi og þú komin á stjá og fær í daglegt líf eftir vikuna, þó sennilega borgi sig að bíða með vinnu í 3 +/- vikur eftir aðgerð. Ég held að þú þurfir samt ekki að vera kvíðin ef aðgerðin er talin nauðsynleg. En þú hefðir átt skilið betri fræðslu tel ég.
Gangi þér vel,
Arnar Hauksson dr. med.