Er lungnabólga landlæg á Kanaríeyjunum?

Var að koma heim frá Gran Canary í fyrradag með bullandi lungnabólgu. Þar virtist há prósenta fólks vera hóstandi eða illa haldin af kvefi. Þetta er í þriðja sinn sem ég kem heim frá Gran Canary eða Tenerife með lungnabólgu! Er ekki tímabært að rannsaka hvað sé í gangi á svæðinu. Ég hef frétt af því að þetta sé nokkuð algengt með ferðalanga héðan. Er nú kominn á penselín og stera og bíð eftir bata. Langar aftur út á sama stað á nýju ári. Er það ráðlegt?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Skv. fréttum af veraldarvefnum að þá var útbreiðsla lungnabólgu meðal ferðamanna á Cran Canary vandamál í byrjun árs 2018 og var þar um að lungnabólgu af völdum klebsiellla bakteríunnar. Í framhaldi var reynt að finna leiðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu og  minnka smithættu einstaklinga en þeir sem voru í mestri hættu voru þeir sem þurftu að leggjast inn á sjúkrahús eða leituðu á læknastofur á Canary eða þurftu svo í framhaldi að leggjast inn á sjúkrahús í sínu heimalandi. Engar nýjar fregnir eru af útbreiðlsu á lungnabólgu á Canary eyjunum.

Lungnabólga getur verið bakteríusýking, veirusýking eða sveppasýking og er það misjafnt eftir tegundum hversu smitandi þær eru og hversu harkaleg einkenni geta verið. Sé ónæmiskerfi viðkvæmt er hægt að fá bólusetningu fyrir lungnabólgu, ræða bara við sinn heimilislækni eða heilsugæslu. Ef þetta er í þriðja skiptið sem þú kemur heim með lungnabólgu að þá vona ég að hún hafi verið rannsökuð í þaula, þ.e.a.s. af hvaða toga hún er og hvort í öll skiptin sé um sömu bakteríu/veiru/svepp að ræða. Eins er vert að skoða hvort þú sért að veikjast úti eða í vélinni á leiðinni heim. Það er hægt að hafa léttan maska yfir munn og nef, sérstaklega í flugvélinni bæði á leiðinni út og heim. Margir nota maska til að verja sig fyrir því sem berst um loftræstikerfi flugvéla og hjálpar það heilmikið þeim sem eru gjarnir á að fá sýkingar. Það gæti verið gott að forvitnast um það hjá ferðaskrifstofuunum hvort að þau hafi heyrt eitthvað um þetta hjá fararstjórum sem vinna á svæðinu. Þar sem þetta er í 3 skipti sem þú færð lungnabólgu eftir ferð að þá myndi maður ráðleggja það að hvíla Canary í bili og prufa eitthvað annað. Umfram allt ráðlegg ég þér að fá betri svör hjá þínum heimilislækni og jafnvel fá álit lungnasérfræðings.

Gangi þér vel,

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.