Er lyfið Imigran vanabindandi?

Spurning:

Er lyfið Imigran vanabindandi? Eru einhver efni í því sem valda fíkn eða timburmannahöfuðverk þegar það er ekki tekið reglulega.

Kveðja.

Svar:

Sæll.

Í sjálfu sér er virka efnið í Imigran (súmatriptan) ekki ávanabindandi en ef þú ert að nota lyfið reglulega og oft (sem þú ert ekki að gera) þá getur þú upplifað fráhvarfseinkenni. Lyfið veldur samdrætti í heilaæðum og við stöðuga og reglulega notkun (sem er ekki æskileg vegna þess að eingöngu á að meðhöndla köst) er stöðugur samdráttur í heilaæðum. Þegar töku lyfsins er hætt víkka æðarnar aftur og þá er líklegt að það finnst fyrir höfuðverk. Hugsanlegt er að eitthvað þessu líkt geti gerst þó að um einstaka skammta sé að ræða.

Þú kannast kannski líka við það ef þú drekkur kaffi, og þá helst mikið kaffi, að þegar þú hættir snögglega þá færðu höfuðverk. Þarna er svipað að gerast. Koffeinið í kaffinu veldur samdrætti í heilaæðum og þegar kaffidrykkjunni er hætt þá víkka æðarnar að því að talið er og maður finnur fyrir höfuðverk.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur