Er McDonalds ekki gott fæði fyrir þá sem vilja passa upp á línurnar?

Spurning:

Sæll.

Í bæklingi frá McDonalds kemur fram að maturinn frá þeim sé bæði hitaeiningasnauður og fitulítill.

Samkvæmt því, er hann þá ekki í lagi fyrir fólk sem vill passa upp á línurnar?

Með kveðju.

Svar:

Sæll.

Já, máttur auglýsinganna getur verið mikill! Hamborgari og franskar verða eflaust seint taldar til fitu- og hitaeiningasnauðs megrunarfæðis. Sem dæmi má nefna að 150 g af frönskum kartöflum (miðlungs skammtur) gefur um 450 hitaeiningar (þar af koma 200 hitaeininganna úr fitu) á meðan 150 g af soðnum kartöflum gefa aðeins um 100 hitaeiningar (þar af aðeins 2 hitaeiningar úr fitu).

Einn „Big mac" hamborgari gefur um 500 hitaeiningar (þar af koma 235 hitaeiningar úr fitu). Þegar haft er hugfast að fólk í aðhaldi er ráðlagt að neyta um 1500 hitaeininga á dag ætti hver maður að sjá að hamborgari og franskar geta vart flokkast til megrunarfæðis.

Varðandi það hvort sé í lagi fyrir fólk ,,sem vill passa upp á línurnar" að neyta skyndibitafæðis eins og hamborgara og franskar þá er svarið: Já. Enda þykir ljóst að þeir sem eru líklegastir til að ná langtíma árangri í baráttunni við aukakílóin séu sér meðvitaðir um að engin fæða sé á bannlista. En að sjálfsögðu þarf fólk í aðhaldi að fara sparlega í að neyta slíkrar fæðu.

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur